Áform Kaupfélags Suðurnesja um að byggja Rósaselstorg, á um 20 þúsund fermetra lóð við síðasta hringtorgið áður en komið er að flugstöðinni, voru kynnt í byrjun þessa árs.

Vonir stóðu til að framkvæmdir hæfust á vormánuðum og þeim lyki á árinu 2017. Nú virðist þó sem framkvæmdum muni seinka um sex til átta mánuði þar sem engir aðrir fjárfestar eru komnir að verkinu. Þetta kemur fram á vef dv.is í dag. Samkvæmt Skúla Þ. Skúlason, stjórnarformaður Kaupfélags Suðurnesja, eru þó viðræður í gangi um þessar mundir. Einnig kemur til greina að eingöngu helmingur verslunarkjarnans verði byggður.

Kaupfélagið hyggst reka Nettó-matvöruverslun í kjarnanum og hefur leitað samstarfsaðila sem gætu séð um rekstur veitinga- og kaffihúss og bensínstöðvar. Áætlaður heildarkostnaður verkefnisins verður á bilinu 600 til 1.000 milljónir króna.

Í samtali við DV segir Skúli skipulagsmálin hafa verið tafsamari en gert hafði verið ráð fyrir. Hafi það m.a. komið til vegna þess að Keflavíkurflugvöllur hafi farið í breytingar á aðalskipulagi flugvallarins.

Skúli segir framkvæmdir við verslunarkjarnann koma til með að taka um tólf til sextán mánuði eftir að þær komist á fullt skrið. Hann útilokar ekki að kaupfélagið sjái á endanum alfarið um fjármögnun verkefnisins. Á dv.is er þó rifjað upp að í janúar fullyrti Skúli að kaupfélagið myndi ekki fjármagna verkefnið eitt og sér enda væri það tiltölulega nýkomið úr fjárhagslegri endurskipulagningu.