Þýska fyrirtækið PCC hefur enn ekki gengið frá fjármögnun vegna byggingu kísilvers á Bakka við Húsavík. Þetta staðfestir Magnús Magnússon, rekstrarráðgjafi PCC hér á landi, í samtali við Viðskiptablaðið. „Félagið á enn í viðræðum við þýskar fjármálastofnanir og það ferli er nú langt komið,“ segir Magnús.

Alþingi samþykkti fyrr í vor tvö frumvörp Steingríms J. Sigfússonar, þáverandi atvinnuvegaráðherra, um ívilnanir vegna framkvæmda á Bakka. Annað þeirra sneri að kísilveri sjálfu en hitt að uppbyggingu innviða. Frumvörpin eru nú til umsagnar hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA). Beinn kostnaður ríkissjóðs vegna ívilnananna er áætlaður um 3,4 milljarðar króna. Aðrir þættir, s.s. umhverfismat og deiliskipulag, liggja fyrir þannig að út af stendur fjármögnun PCC á verkefninu.