Sex milljarða fjármögnun veðskuldabréfasjóðsins VíV II er lokið en þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslenskum verðbréfum hf.

Í tilkynningunni segir að megintilgangur sjóðsins sé að fjármagna atvinnufasteignir og fasteignasöfn. Eigendur sjóðsins eru í hópi stærstu fagfjárfesta landsins og verður sjóðurinn rekinn af ÍV sjóðum, dótturfélagi Íslenskra verðbréfa.

„Það er mjög ánægjulegt að fjármögnun sjóðsins sé lokið og að starfsemi hans sé að hefjast. Við finnum fyrir mikilli þörf fyrir öflugan og samkeppnishæfan aðila á fjármögnunarmarkaði um atvinnufasteignir sem byggir starfsemi sína á faglegri og skjótri ákvörðunartöku. Reynsla okkar og tengsl í gegnum starfsemi sambærilegra sjóða munu nýtast okkur til að byggja upp traust safn fjármögnunarverkefna,“ er haft eftir Hreini Þór Haukssyni, framkvæmdastjóra ÍV sjóða af þessu tilefni.