Síðdegis í gær var undirrituð viljayfirlýsing um fjármögnun byggingar 120.000 tonna álvers við Hafursstaði í Skagabyggð á Norðurlandi. Það voru Klappir Developement og China Nonferrous Metal Industry‘s Foreign Engineering and Construction (NEC) sem skrifuðu undir í Ráðherrabústaðnum við Tjarargötu síðdegis í gær. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Zhang Weidong, sendiherra Kína á Íslandi, fluttu ávörp við þetta tilefni.

Klappir og NFC vinna um þessar mundir í sameiningu að hagkvæmniathugun vegna byggingar og reksturs fyrirhugaðs álvers. Heildarkostnaður verkefnisins er áætlaður rúmir 100 milljarðar króna (780 milljónir Bandaríkjadala). Áætlanir gera ráð fyrir 240 varanlegum störfum í álveri Klappa og allt að 800 tímabundnum störfum á byggartíma.

Í viljayfirlýsingunni á milli Klappa Development og NFC er kínverska samstarfsaðilanum falin svokölluð „alframkvæmd“ (e. turnkey) verkefnisins. Samkvæmt yfirlýsingunni ábyrgist NFC fjármögnun a.m.k. 70% kostnaðar við framkvæmdina og uppbyggingu innviða í gegnum kínverska eða aðra banka, auk þess að ábyrgjast byggingu allra mannvirkja sem og rekstur álversins á meðan uppkeyrslu þess stendur.

Í viljayfirlýsingunni er einnig kveðið á um samvinnu Klappa og NFC um gerð samninga við þriðja aðila um forsölu framleiðsluafurða (e. offtake) sem og um samstarf um gerð samninga við seljendur hráefnis.

Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að fjárhagslegri og tæknilegri úttekt á verkefninu ætti að ljúka fyrir lok árs. Í framhaldi verði tekin ákvörðun um byggingu álversins. Veltur það m.a. á því að það takist að tryggja orku.