Þrátt fyrir að samþykkt hafi verið lög á þingi um fjármögnun Vaðlaheiðarganga hefur enn ekki verið gengið frá samningi um fjármögnun verksins. Á fundi Eiríks Björns Björgvinssonar, bæjarstjóra Akureyrar, með fjármálaráðherra og atvinnuvegaráðherra var fjallað um að auka hlutafé Vaðlaheiðarganga ehf um 200 milljónir til viðbótar svo hlutafé verði 600 milljónir í stað 400 milljóna eins og áður var talað um. Dagblaðið Vikudagur fjallaði um málið á vef sínum í gær.

Þar er haft eftir Eikríki Birni að fundurinn hafi verið gagnlegur og hann bindi vonir við að endanlega verði gengið frá samningi um fjármögnun verksins á næstu dögum. Hann segir allt þokast í rétta átt og vonast til að hægt verði að byrja á framkvæmdunum fyrir alvöru hið fyrsta.

Vikudagur ræddi einnig við Kristján Þór Júlíusson, þingmann Sjálfstæðisflokksins í NA kjördæmi sem furðar sig á seinaganginum. „Hartnær fjórir mánuðir eru liðnir frá því Alþingi samþykkti endanlega að ráðist skyldi í verkið og þrátt fyrir það hefur ekki tekist að semja við ríkið um lánsfjármögnunina. Verktakinn bíður eðlilega eftir því að lánsfjármögnunin liggi fyrir. Norðanmenn hafa staðið við sitt í þessum efnum og kalla á efndir,“ er haft eftir Kristjáni.