Kaupþing banki mun horfa til fjármögnunar þeirra banka sem hann kaupir næst, segir Sigurður Einarsson, stjórnarformaður bankans í viðtali við Viðskiptablaðið í dag.

Að sögn Sigurðar er fjármögnun á rekstri einn af þeim lykilþáttum sem verður horft til þegar verið er að skoða hugsanleg kaup á nýjum einingum.

"Þegar við t.d. keyptum FIH bankann í Danmörku var hann 100% fjármagnaður á skuldabréfamarkaði. Ég myndi halda að það væri frekar ólíklegt að við myndum hafa áhuga á að yfirtaka annað slíkt fyrirtæki. Það þyrfti þá að vera mjög gott fyrirtæki. Það sem við munum horfa á er fyrirtæki á því markaðssvæði sem við erum á núna og hugsanlega inn í nágrannalöndin."

"Svo til viðbótar viljum við gjarnan fylgjast vel með heitum svæðum (e. hot spots) víða um heim. Þar gætu legið áhugaverðir möguleikar. Ég vil ekki útiloka slíkt en langlíklegustu svæðin eru þó Bretland, Norðurlöndin og svo Niðurlönd. Um það bil 30% af starfsemi okkar er núna í Bretlandi og 10% í Lúxemborg og því tæpast lengur hægt að kalla okkur norrænan banka. Þess vegna skilgreinum við okkur sem norður-evrópskan banka."

Sigurður bendir á að það hafi verið gefið upp í upphafi árs 2006 að það ár yrði notað til þess að ná Singer & Friedlander inn í Kaupþings samstæðuna og það væri mjög ólíklegt að bankinn myndi kaupa eitthvað á þessu ári. Hann segist ekki vera tilbúinn að segja það sama fyrir árið 2007.

"Það er fullt af tækifærum í bankaheiminum allt í kringum okkur og við erum auðvitað stöðugt að skoða þau. Menn munu sjá það þegar reikningarnir koma fyrir árið 2006 að rekstur bankans gengur vel. Eiginfjárhlutfallið er mjög hátt, bankinn er vel fjármagnaður og gæði eigna mjög mikil. Þetta veitir okkur burði til þess að taka þátt í frekari samþjöppun á þessum markaði ef við sjáum rétt tækifæri. Það hefur gengið mjög vel að fella rekstur Singer & Friedlander að rekstri bankans og við sjáum að Kaupþing Singer & Friedlander, eins og það heitir nú, muni blómstra á árinu 2007."

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.