Erlend fjármögnunarkjör bankanna hafa batnað jafnt og þétt undanfarna mánuði og eru nú jafn góð og þau voru áður en neikvæð erlend umræða skók fjármagnsmarkaði meirihluta síðasta árs. Álag á skuldatryggingar bankanna á eftirmarkaði er að öllu jöfnu notað sem mælikvarði á það traust sem bankarnir njóta á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum og hefur álagið nú ekki verið lægra síðan við upphaf síðasta árs.

Álag á skuldatryggingar Kaupþings er nú 42 punktar og hefur lækkað um 10 punkta síðan í byrjun janúar. Álag skuldatrygginga Kaupþings og Landsbankans er nú í 32 punktum. Landsbankinn hefur á fyrstu vikum ársins lækkað um átta punkta og Glitnir um fjóra. Því lægra sem álagið er því betra en álagið náði hæstu hæðum síðastliðið vor þegar álag Kaupþings fór upp í 100 punkta, Landsbankans upp í 105 punkta og álagið á skuldatryggingum Glitnis fór hæst upp í 80 punkta.

Glitnir hefur hingað til skorið sig talsvert frá hinum bönkunum tveimur og notið talsvert lægra skuldatryggingaálags. Megnið af síðasta ári var Glitnir til að mynda 10 til 15 punktum lægri en hinir bankarnir að jafnaði. Nú er álag Landsbankans og Glitnis hinsvegar hið sama og Kaupþing er aðeins tíu punktum hærra þannig að ljóst er að dregið hefur saman með bönkunum.

Að sögn sérfræðings sem Viðskiptablaðið ræddi við er þetta til marks um að fjármögnunaraðstæður íslensku bankanna séu nú að komast í eðlilegt horf eftir umrót síðasta árs. Álagið á skuldatryggingar Landsbankans og Kaupþings hefur dregist saman jafnt og þétt undanfarið á meðan skuldatryggingar Glitnis hafa staðið í stað. Þetta er að sögn sérfræðinga vegna þess að álag Glitnis náði jafnvægi mun fyrr og því meira svigrúm til lækkunar hjá hinum bönkunum tveimur. "Líklegt er að skuldatryggingar allra íslensku bankanna verði með svipuðu álagi innan skamms enda lítið sem réttlætir allt að 20 punkta mun þeirra á milli líkt og á síðasta ári. Þetta eru allt bankar með hátt lánshæfismat og sterk viðskiptamódel," sagði sérfræðingur. Þá ríkir að hans sögn mikil bjartsýni í kringum íslensku bankana og flestir markaðsaðilar búast við góðum uppgjörum. Uppgjör Landsbankans birtist í dag, en Glitnir og Kaupþing birta uppgjör sín snemma í næstu viku. Að mati sérfræðinga er ekki ólíklegt að álag bankanna lækki ennþá meira þá ef uppgjör eru í takt við væntingar.