*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 15. nóvember 2011 17:01

Frakkar greiða tvöfalt meira fyrir lán en Þjóðverjar

Ávöxtunarkrafan á flest ríkisskuldabréf önnur en þýsk hækkaði umtalsvert í dag.

Ritstjórn

Traust fjárfesta á mörgum evrópskum ríkisskuldabréfum minnkaði enn frekar í dag og yfirgáfu þeir skuldabréf margra Evrópuríkja, sem talin hafa verið standa höllum fæti, og keyptu frekar þýsk skuldabréf.

Fjármögnunarkostnaður franska ríkisins er nú um tvöfaldur á við kostnað þess þýska. Í dag hækkaði ávöxtunarkrafan á frönsk tíu ára skuldabréf í 3,65%, en krafan á þau þýsku lækkaði hins vegar í 1,7%. Er krafan á frönsku bréfunum nú nær þeirri sem er á spænskum bréfum en þýskum, en krafan á 10 ára spænsk ríkisskuldabréf hækkaði í 4,5% og er það met.

Annað met var slegið þegar krafan á tveggja ára þýska ríkisbréf fór undir 0,3% í fyrsta skipti. Ávöxtunarkrafa á bréf Belgíu og Austurríkis hækkaði einnig í dag og tíu ára ítölsk ríkisskuldabréf fóru að nýju yfir 7%.

Hæst hefur krafan á ítölsk bréf farið í 7,48% þann 9. nóvember síðastliðinn.

Ávöxtunarkrafan á tveggja ára spænsk ríkisbréf var svo há að spænska ríkið seldi ekki öll þau bréf sem það stefndi að því að selja. Krafan fór yfir fimm prósent og var það of mikið fyrir spænsku ríkisstjórnina.

Evrópsk hlutabréf lækkuðu sömuleiðis í dag, en breska FTSE vísitalan lækkaði um 0,03%, þýska DAX vísitalan um 0,87% og franska CAC vísitalan um 1,92%.

Stikkorð: Evrópa Skuldavandi