Norrænu fjármögnungarsjóðirnir NEFCO og NOPEF efna til kynningar á starfsemi sjóðanna og möguleikum íslenskra fyrirtækja til að sækja um stuðning á Hótel Nordica í Reykjavík á morgun 15. apríl kl. 08:00 til 10:00.

NEFCO veitir hagstæð lán til norrænna fyrirtækja sem vilja vinna að verkefnum á starfssvæði sjóðsins sem er Austur- Evrópa, fyrst og fremst lönd eins og Rússland, Úkraína og Hvíta Rússland. Um er að ræða verkefni t.d. við öflun og nýtingu orku, í iðnaðarframleiðslu og við meðhöndlun úrgangs.

Magnus Rystedt framkvæmdastjóri NEFCO og Þórhallur Þorsteinsson fjárfestingarstjóri kynna starfsemi NEFCO og möguleg  tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki. Á fundinum verður einnig kynnt starfsemi Norræna útflutningssjóðsins NOPEF sem hefur það markmið að styrkja alþjóðlega samkeppnishæfni lítilla og meðalstórra fyrirtækja á Norðurlöndum.

Norræna umhverfisfjármögnunarfélagið (NEFCO - Nordic Environment Finance Corporation) er alþjóðleg fjármálastofnun sem stofnuð var árið 1990 af norrænu ríkjunum fimm Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð.

Um þessar mundir tekur NEFCO þátt í um 350 litlum og meðalstórum verkefnum á ýmsum sviðum. Þar er m.a. um að ræða verkefni sem tengjast efna-, málm- og matvælaiðnaði, landbúnaði, hreinsun á vatni og frárennsli, orkuöflun og bættri orkunýtningu, þjónustu sveitarfélaga, meðhöndlun úrgangs, umhverfisstjórnun og umhverfistækni af ýmsu tagi.

NEFCO hefur yfir að ráða nokkrum mismunandi sjóðum sem ætlað er að styðja við hin ýmsu verkefni. Auk sjálfs Fjárfestingasjóðsins má nefna Norræna umhverfisþróunarsjóðurinn og Kolefnissjóð NEFCO (NeCF). NEFCO hefur einnig umsjón með sjóðum annarra aðila sem leggja fé í umhverfisverkefni og má í því sambandi nefna framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og ríkisstjórnir Norðurlanda. Heildarupphæð þess fjármagns sem NEFCO hefur verið falin umsjón með er nú rúmlega 380 milljónir evra.