Bein fjárfesting Íslendinga erlendis, mælt í flæði fjármagns, á árinu 2009 nam alls um 555 milljörðum króna. Mest var fjárfest í Bretlandi, eða fyrir um 262 milljarða króna.

Næstmest var fjárfesting landsmanna í Belgíu og Lúxemborg. Þar var bein fjárfesting um 148 milljarðar króna. Bein fjármunaeign Íslendinga erlendis nam um 873 milljörðum króna á síðasta ári.

Bein fjárfesting Íslendinga á Cayman eyjum hækkaði mikið á milli áranna 2008 og 2009. Hún nam rúmum 4 milljörðum á síðasta ári en var 26 milljónir árið áður. Bein fjármunaeign Íslendinga á Cayman eyjum hefur sömuleiðis aukist mikið á milli ára og nam á árinu 2009 um 58 milljörðum króna. Á árinu 2008 var hún tæpur hálfur milljarður króna. Fjármunaeign Íslendinga á Cayman eyjum var því nær 150 sinnum meiri í fyrra en árið áður.

Þá var bein fjárfesting Íslendinga í Qatar um 7,8 milljarðar á árinu 2009. Íslendingar hafa ekki fjárfest áður þar í landi.

Af 555 milljarða fjárfestingu Íslendinga erlendis á árinu 2009 voru 183 milljarðar króna í fjármála- og vátryggingastarfsemi. Þar af eru um 120 milljarðar króna fjárfest í eignarhaldsfélögum og 14 milljarðar í fasteignafélögum.

Af beinni fjárfestingu Íslendinga er fjárfest um 104 milljörðum í framleiðslu, tæpum 100 milljörðum í verslun og um 31 milljarði í flutningum og geymslu.