Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði fyrir helgi kröfu Váttar ehf. um að fjárnámsgerð í jörðinni Galtalækjarskógi, sem gerð var í upphafi árs, yrði felld úr gildi. Forsaga málsins er alllöng og á rætur sínar að rekja til Wernerssonanna Karls og Steingríms.

Árið 2011 gerðu þeir bræður með sér samkomulag um að Steingrímur myndi selja Karli eignarhluti í nokkrum félögum. Meðal annars keypti Karl helmingshlut bróður síns í Vætti ehf. Kaupverðið, 120 milljónir króna, skyldu greiðast með skuldabréfi en það var tryggt með fyrsta veðrétti í Galtalækjarskógi. Afborganir af því áttu að hefjast árið 2016, fjórar jafnar greiðslur á ári, og skyldi það greitt upp á tíu árum.

Í samningnum var að finna ákvæði þess efnis að Steingrímur myndi skuldbinda sig „til þess að tjá sig ekki við neinn aðila um málefni sem tengjast [Karli] og samskipti seljanda við kaupanda og félög og aðila er honum tengjast, þar með talið, en þó ekki tæmandi, við banka, fjölmiðla, yfirvöld, skiptastjóra [...] o.fl. Færi kaupandi fram lögfullar sannanir fyrir því að seljandi geri það samt sem áður fellur niður greiðsluskylda [...] auk þess sem sala á [Vætti] gengur til baka, það er seljandi fær afhentan á ný eignarhluta sinn í A. Skal þá [lögmaður Steingríms] afhenda [Karli] veðskuldabréf er hvílir á [Galtalækjarskógi].“

Í október 2013 krafðist lögmaður Karls þess að bréfið yrði afhent sér gegn afhendingu á eignarhlutum í Vætti til Steingríms. Ástæðan var sú að Steingrímur hefði brotið gegn tilvitnuðu ákvæði með því að tjá sig um efni er varða Karl í viðtali við Fréttatímann sáluga sem og sérstakan saksóknara. Sú krafa var ítrekuð árið 2016 og þess krafist að skuldabréfið yrði tekið úr innheimtu.

Hlutafé í Vætti aukið

Í maí 2017 undirritaði Karl framsal á 250 þúsund hlutum í Vætti til Steingríms. Þá hafði félagið að vísu verið í 100% eigu Faxa ehf. Það félag er síðan í eigu Toska ehf. sem síðan er í eigu Jóns Hilmars Karlssonar Wernerssonar. Faxi ehf. á síðan Faxa ehf. sem á meðal annars Lyf og Heilsu hf. Degi eftir að Karl hlaut dóm í Milestone-málinu virðast félögin öll hafa verið færð á yfir á son hans en skiptastjóri þrotabús hans hefur höfðað mál til riftunar á ýmsum gjörningum í tengslum við þetta.

Áður en hlutirnir voru færðir á nafn Steingríms hafði hlutafé í Vætti hins vegar verið aukið um 2,1 milljón. Í stað þess að Steingrímur hefði fengið helmingshlut í gegnum 250 þúsund hluti fékk hann aðeins 9,62%. Allir þessir gjörningar virðast hafa verið gerðir einhliða af Karli.

Þar með er ekki öll sagan sögð. Árið 2017 krafðist Karl þess að fá skuldabréfið, sem á þeim tímapunkti hafði verið handveðsett lögmanni Steingríms til tryggingar greiðslu launa, afhent úr vörslum lögmannsins. Fallist var á það í héraði. Sá úrskurður var kærður til Hæstaréttar en um svipað leyti var bú Steingríms tekið til gjaldþrotaskipta. Þrotabúið tók því bréfið í sínar vörslur. Bréfið hefur því aldrei verið afhent Karli. Hæstiréttur vísaði kæru lögmannsins á úrskurði héraðsdóms frá .

Þrotabú Steingríms hefur haldið áfram að innheimta skuldabréfið. Þegar bú Karls var tekið til gjaldþrotaskipta, en samanlagðar kröfur í bú þeirra bræðra nema um 27 milljörðum króna, var ákveðið að halda áfram að innheimta bréfið hjá veðþola og því farið fram á fjárnám í veðandlaginu.

Réttur og skylda ekki á sömu hendi

Váttur ehf. krafðist þess að aðfarargerðin yrði felld úr gildi þar sem óvissa væri uppi um það hvort þrotabú Steingríms eigi réttindi samkvæmt því. Úrskurður héraðsdóms frá 2017, um að afhenda bæri Karli bréfið, stæði enn óhaggaður. Þá hefði Karl staðið við sínar skuldbindingar, afhent hlutina á ný, og bæri því að fá bréfið. Við það myndi krafa samkvæmt því falla niður þar sem skuld og krafa væru á sömu hendi.

Þrotabú Steingríms mótmælti þessum rökum. Hvorki Steingrímur né þrotabú hans hefði verið aðili að fyrrnefndu aðfararmáli og því gæti úrskurður í því ekki bundið aðila. Þá væru einnig vafamál hvort unnt væri að rifta fyrrgreindu samkomulagi á þeim grunni sem Karl telur. Ef það væri unnt þá bæri að skila á ný upphaflegum hlut, það er helmingshlut í Vætti ehf. Sá hlutur hefði hins vegar verið þynntur út með fyrrgreindri hlutafjáraukningu. Ef slíkt næði fram að ganga myndi Váttur ehf. losna undan 120 milljóna króna skuld en myndi á móti sölsa undir sig rúmlega 90% hluta í félaginu.

Í úrskurði héraðsdóms var öllum röksemdum Váttar hafnað. Var meðal annars á það bent að allir gjörningar Karls hefðu verið einhliða og engin viðbrögð hefðu verið við þeim af hálfu bróður hans.

„[Þ]ótt undið yrði ofan af samningi þeirra bræðra frá 20121 með þeim hætti sem [Karl] telur réttmætt, gæti hann ekki afhent þá greiðslu sem honum ber að inna af hendi miðað við samninginn, þ.e. hlutirnir í sóknaraðila hefðu rýrnað stórkostlega án sérstakra skýringa sem komið verði auga á, þ.e. til að mynda röksemda fyrir hlutafjáraukningu í félaginu,“ segir í úrskurði héraðsdóms .

Hvorki Steingrímur né þrotabú hans hefðu ljáð máls á því að eignarréttur að bréfinu hefði færst til Karls heldur haldið hinu gagnstæða fram. Því hefði krafan, og þar með veðréttindi í Galtalækjarskógi, ekki fallið niður vegna samruna réttar og skyldu. Var því því hafnað að fella fjárnámið úr gildi.

Vætti var að endingu gert að greiða þrotabúi Steingríms 750 þúsund krónur í málskostnað. Halldór Brynjar Halldórsson, lögmaður Váttar, segir við Viðskiptablaðið að hann telji líklegt að niðurstaða héraðsdóms muni vera kærð til Landsréttar.