Bank of America hefur frá bankahruninu 2008 fengið á sig orð fyrir að vera mjög harður í horn að taka þegar kemur að vanskilum á húsnæðislánum. Hefur bankinn verið mjög grimmur í að hrifsa heimili af fólki sem ekki stendur í skilum á lánum og er mjög fljótur að grípa til slíkra aðgerða, jafnvel eftir að lántaki hefur misst af aðeins einni greiðslu.

Bank of America hefur þó væntanlega gengið of langt þegar hann ætlaði að taka af manni hús, sem ekki aðeins gereyðilagðist í fellibyl árið 2008, heldur hafði eigandinn greitt samviskusamlega af láninu þrátt fyrir eyðilegginguna. Hafði Bank of America hækkað afborganir, en eigandinn fékk ekki að vita af því vegna þess að tilkynningar þess efnis voru sendar í pósti í póstkassa sem hafði fokið út á haf árið 2008.