Héraðsdómur Reykjaness komst að þeirri niðurstöðu í dag að einstaklingi sem var gert fjárnám hjá í september 2009 sé ekki heimilt að fá fjárnámsgerð endurupptekna hjá sýslumanninum í Hafnarfirði. Farið var fram á að fjárnámsgerðin yrði endurupptekin, þar sem dómstólar hafi dæmt gengistryggð lán ólögmæt. Fjárnámið var gert að kröfu Arion banka, sem var varnaraðili í málinu.

Málavextir eru þeir að sóknaraðili tók erlent myntkörfulán að fjárhæð 26 milljónum króna hjá Kaupþingi Búnaðarbanka í maí 2005. Vegna gengistryggingar hækkaði lánið, sem olli því að fasteignin varð yfirveðsett. Vegna vanskila á öðru láni krafðist Nýi Kaupþing fjárnáms, en höfuðstóll þess láns var um 3 milljónir króna. Árangslaust fjárnám var síðan gert í september 2009 og bú sóknaraðila tekið til gjaldþrotaskipta í janúar 2010.

Sóknarliði vísaði í dóm hæstaréttar frá 16. júní 2010 um ólögmæti gengistryggðra lána, og bráðabirðaákvæði sem var sett í kjölfarið um þar sem kveðið er á um sérstaka heimild til endurupptöku dóma og úrskurða. Sóknaraðili taldi að ekki hafi verið farið fram á fjárnám í september 2009, ef ekki hefði verið fyrir hið ólögmæta gengislán.

Arion banki taldi að hafna ætti kröfu sóknaraðila, þar sem krafist var fjárnáms vegna yfirdráttarskuldar.

Dómari segir í niðurstöðum um lög um endurupptöku mála vegna ólögmætra gengistrygginga: „Ekkert er að finna í lögskýringargögnum um að vilji löggjafans hafi verið sá að allir þeir sem hafi, með einum eða öðrum hætti, lent í greiðsluerfiðleikum vegna gengistryggðra lána, eigi þann rétt að fá mál sín endurupptekin. Þá verður að líta til þess að tilviljun ein ræður í þessu máli að það sé sami kröfuhafinn að gengistryggða húsnæðisláninu og yfirdráttarskuldinni. Óskyldur kröfuhafi hefði allt eins getað hafa verið sá sem krafðist fjárnáms á sínum tíma eða að bú sóknaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta.“

Þá segir í niðurstöðum að fjárnám hafi verið gert vegna yfirdráttarins. „Verður ekki annað ráðið af því en að sóknaraðili hafi þá þegar verið kominn í greiðsluþrot  og áður en umrætt gengistryggt lán stökkbreyttist í kjölfar efnahagshrunsins í október 2008. Þrátt fyrir að leiða megi líkur að því að greiðsluerfiðleikar sóknaraðila hafi orsakast af greiðslubyrði hins gengistryggða láns er áhvílandi var á fasteigninni Klausturhvammi 20, Hafnarfirði, verður ekki ráðið af orðalagi bráðabirgðaákvæðis XIII, laga nr. 38/2001, né lögskýringargögnum, að ákvæðinu hafi verið ætlað að ná til annarra skulda en gengistryggðra samninga,“ segir í niðurstöðum. Kröfu sóknaraðila var því hafnað.

Dómur héraðsdóms .