Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi hækkaði um 1,93%, upp í 2.046 stig, í viðskiptum dagsins í kauphöllinni, sem samanlagt námu 5,2 milljörðum króna. Fór gengi vísitölunnar við lok dags fyrst yfir 2.000 stiga múrinn á föstudaginn, en það gerðist síðast þar á undan við lokun markaða 23. september síðastliðinn eða fyrir rúmlega einum og hálfum mánuði síðan.

Einungis tvö félög lækkuðu í virði í viðskiptum dagsins, það er fjarskiptafélögin tvö Sýn og Síminn. Það fyrrnefnda lækkaði um 1,12%, í 57 milljóna króna viðskiptum og var lokagengi félagsins 26,50 krónur, en það síðarnefnda lækkaði um 0,41%, niður í 4,85 krónur hvert bréf í mun meiri viðskiptum eða fyrir 364 milljónir króna.

Icelandair hækkaði mest, eða um 6,54%, upp í 7,66 krónur hvert bréf, í 403 milljóna króna viðskiptum. Næst mest hækkun var á gengi bréfa Eimskipafélagsins, eða um 4,69%, upp í 178,50 krónur, í 97 milljóna króna viðskiptum. Þriðja mesta hækkunin var svo á gengi bréfa Sjóvá, eða um 4,15%, í 435 milljóna króna viðskiptum, og var lokagengi bréfanna 17,55 krónur.

Mestu viðskiptin voru með bréf Haga, eða fyrir 707 milljónir króna, en bréf félagsins hækkuðu um 3,33%, upp í 43,50 krónur. Næst mestu viðskiptin voru svo með bréf Marel, eða fyrir 621 millj´n króna, en gengi bréfanna fór upp í 580,00 krónur eftir 1,39% hækkun.

Fyrir utan félögin tvö sem lækkuðu voru einungis fjögur félög sem hækkuðu minna, það eru Brim, Reginn, Heimavellir og Icelandic Seafood, í þeirri röð.Gengi krónunnar styrktist gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum sínum, utan Bandaríkjadals sem styrktist um 0,13%, upp í 123,21 krónur, gagnvart krónunni.

Lækkaði gengi sænsku krónunnar mest af þeim 9 mynntum sem Keldan tekur saman, eða um 0,26%, niður í 12,838 krónur, meðan breska pundið lækkaði um 0,06%, í 159,08 króna kaupgengi. Evran stóð hins vegar í stað og fæst hún nú á 137,44 krónur.