Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,43% í þriggja milljarða króna veltu Kauphallarinnar í dag. Fimmtán af nítján félögunum lækkuðu í viðskiptum dagsins.

Langmesta veltan, eða um 1,2 milljarðar króna, var með hlutabréf Arion banka sem lækkuðu um eitt prósent. Hlutabréfaverð bankans hefur engu að síður hækkað um 27% á árinu.

Icelandair lækkaði mest allra félaga eða um tæp 2% í 81 milljón króna viðskiptum. Reginn lækkaði næst mest um 1,8% og Reitir fylgdi þar á eftir í 1,6% lækkun en Eik hækkaði þó um 0,1%.

Síminn hækkaði mest eða um hálft prósent í 129 milljóna króna veltu. Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri sölu hjá Símanum, keypti fyrir rúmlega 27 milljónir í félaginu í dag. Hitt fjarskiptafélagið í Kauphöllinni, Sýn, hækkaði einnig um 0,4% í dag.