Hlutabréfaverð skráðu fjarskiptafélaganna Símans og Sýnar hækkað skarplega í viðskiptum dagsins. Hlutabréfaverð í Sýn hefur hækkað um 8,54% í 203 milljóna króna viðskiptum og stendur gengi bréfa félagsins í 34,3 krónum á hlut. Hlutabréfaverð Símanum hefur hækkað um 4,08% í 618 milljóna króna viðskiptum og stendur gengi bréfa félagsins í 5,48 krónum á hlut.

Eftir lokun markaða í gær var greint frá því að Síminn, Sýn og Nova myndu hefja viðræður um möguleika á samnýtingu og samstarf við uppbyggingu fjarskiptainnviða.

Í grein sem Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, skrifaði í Viðskiptablaðið í byrjun nóvember, kom fram að hagræði gæti verið af því að hafa innviði í tegnslum við 5G dreifikerfi í sameiginlegu félagi fjarskiptafélaga. „Það væri því óráð ef mörg ótengd 5G kerfi yrðu til staðar og þróunin í Evrópu er sú að fjarskiptafyrirtækin taka sig saman um uppbygginguna,“ skrifaði Heiðar.

„Það er til hagsbóta fyrir neytendur því ekki nóg með að kerfið sé öruggara þá er það líka umtalsvert ódýrara en ef hvert fyrirtæki fyrir sig ætlar sér að byggja eigið kerfi. Það er líklegt að með aukinni tæknivæðingu hagkerfisins sjáum við mikla aukningu í þessa veru, að innviðir atvinnugreina sé teknir út úr samkeppnisfyrirtækjunum og settir í sér félag. Það er síðan rekið með sama fyrirkomulagi og dreifiveitur landsins í rafmagni og vatni. Hagræðingin sem af þessu hlýst gerir það svo að verkum að verðlag getur haldið áfram að lækka á grunnþjónustu samfélagsins,“ skrifaði Heiðar.