*

fimmtudagur, 24. september 2020
Erlent 11. febrúar 2020 17:19

Fjarskiptarisar sameinast

Hlutabréfaverð fjarskiptafyrirtækisins Sprint hefur hækkað um 73% eftir að kaup T-Mobile á fyrirtækinu voru samþykkt.

Ritstjórn

Bandarískir dómstólar heimiluðu fyrr í dag samruna bandarísku fjarskiptafyrirtækjanna T-Mobile US og Sprint um tveimur árum eftir að upphaflega var greint frá kaupum fyrrnefnda fyrirtækisins á því síðarnefnda. 

Samruninn var samþykktur af bandarískum samkeppnisyfirvöldum á síðasta ári en málið fór fyrir dómstóla eftir að 14 ríki kærðu niðurstöðuna til dómstóla. Að mati dómsins mun samruninn ekki hafa meiri háttar áhrif á fjarskiptamarkað í Bandaríkjunum og hafnaði þar með kröfu ríkjanna um að koma í veg fyrir samrunan samkvæmt frétt Wall Street Journal.

Með samrunanum verða nú þrír fjarskiptarisar á bandaríska markaðnum en hinir tveir eru Verizon og AT&T.  T-Mobile mun greiða um 26 milljarða dollara fyrir Sprint en hlutabréfaverð félagsins hefur hækkað um 73% eftir að samruninn var samþykktur. Þá hefur hlutabréfaverð T-Mobile hækkað um 11%. 

Stikkorð: Verizon Sprint