Bandaríska fjarskiptafyrirtækið Verizon Communications seldi í dag skuldabréf upp á 49 milljarða dala, jafnvirði 5.900 milljarða íslenskra króna. Önnur eins lántaka hefur ekki áður sést á bandarískum fjármálamarkaði. Apple átti fyrra metið í lántökum þegar það seldi skuldabréf upp á 17 milljarða dala í vor, samkvæmt umfjöllun bandarísku fréttastofunnar CNBC .

Féð ætlar Verizon Communications að nota til kaupa á hlut breska fjarskiptafyrirtækisins Vodafone í Verizon Wireless sem fyrirtækin eiga saman. Kaupverðið nemur 130 milljörðum dala.

Skuldabréfin eru mislöng eða allt til þriggja ára og til 30 ára. Meirihluti lánsins, 15 milljarðar dala, er með lengsta gjaldagann.