Samþykkt var á aðalfundi Fjarskipta hf. sem fram fór í höfuðstöðvum félagsins að Suðurlandsbraut 8 síðdegis í dag að nafnabreyta félaginu og er Sýn nýtt heiti á sameinuðu félagi Vodafone og sameinaðrar fjölmiðlastarfsemi sem innifelur meðal annars Stöð 2, Stöð2 Sport, Vísi, Bylgjuna, FM957 og Xið 977.

Aðalástæðan fyrir nafnabreytingunni, úr Fjarskipti hf., er sögð sú að starfsemi félagsins hefur breikkað og því hafi gamla nafnið ekki verið nógu lýsandi fyrir sameinað félag. Sýn verður þannig regnhlífavörumerki yfir 20 núverandi vörumerkja og framtíðar vörumerkja.

Í tilkynningu segir að breytingin muni ekki hafa áhrif á notkun eða starfsemi vörumerkjanna heldur sé einungis ætlað að sameina mörg sterkustu vörumerki landsins í eina heild. Vörumerkið mun verða notað í tengslum við reikningagerð sameinaðs félags og í tengslum við skráningu félagsins á verðbréfamarkaði og aðra almenna þætti félagsins á sama hátt og Fjarskipti hf. var notað áður.

„Sýn er gamalt vörumerki sem margir muna eftir í tengslum við fjölmiðlastarfsemi. Nafnið er þó ekki síður valið með tilliti til mikilvægi þess að horfa til framtíðar á þeim mörkuðum sem fyrirtækið starfar,“ segir í tilkynningunni.