Stefán Sigurðsson tók við starfi forstjóra Fjarskipta (hér eftir Vodafone) í maí á síðasta ári en fram að því starfaði hann sem framkvæmdastjóri VÍB, eignastýringaþjónustu Íslandsbanka. Vodafone hefur verið í örum vexti frá því að félagið var stofnað fyrir um sautján árum og hefur teygt anga sína víða í síbreytilegum heimi fjarskiptamarkaðarins. Það býr við stöðuga og harða samkeppni á markaðnum frá Símanum, Nova og 365 en hefur náð mikilli fótfestu, bæði á einstaklings- og fyrirtækjamarkaði.

Að sögn Stefáns mun fjarskiptamarkaðurinn taka töluverðum breytingum á næstu árum en þar vísar hann meðal annars til vaxtar svokallaðar M2M tækni sem gerir tækjum kleift að eiga samskipti sín á milli. Áður en Stefán hóf störf fyrir Vodafone segist hann hafa þekkt fyrirtækið vel en það hafi komið honum verulega á óvart þegar hann hóf störf sem forstjóri þess. „Það er stærra en ég hélt, meiri innviðir og meiri fyrirtækjaviðskipti,“ segir Stefán. „Fyrirtækið er ekki bara með tæknilega innviði heldur líka innviði í sölu og þjónustu. Þegar ég gekk inn í salinn í Skútuvogi þar sem salan og þjónustan fer fram þá skynjaði ég ákveðinn kraft og tækifæri sem felast í því. Það eru meira en 200 manns bara á sölu- og þjónustusviði.

Blóð, sviti og tár

Hverjir eru styrkleikar og veikleikar Vodafone í samanburði við samkeppnisaðila?

„Ég myndi klárlega segja að styrkleikar Vodafone séu fólgnir í því að það er alhliða fjarskiptafyrirtæki. Fyrirtækið á stóran hluta af sínum innviðum sjálft. Fyrir sautján árum síðan var það stofnað með litla innviði og það fyrirtæki á markaðnum sem var fyrir með 100% markaðshlutdeild tók þessum smáu fyrirtækjum ekkert rosalega vel. Við þekkjum sögu mikilla samkeppnismála og sátta.

Ég segi stundum að Vodafone ætti ekki svona mikla innviði í dag ef sá aðili sem fyrir var á markaðnum hefði tekið samkeppninni mjög vel. Það hefur verið blóð, sviti og tár fyrir Vodafone að koma þessum tæknilegu innviðum upp en hins vegar býr Vodafone vel að því í dag. Að því leyti er fyrirtækið nokkuð sjálfstætt þegar kemur að tæknilegum innviðum. Það verslar við önnur fyrirtæki en er með uppsetningu sem gerir það að verkum að það er sjálfstætt. Ég hef trú á því að til lengri tíma muni það að hafa margar tegundir fjarskipta sem vinna saman gagnvart viðskiptavininum í þjónustu þar sem viðskiptavinurinn þarf ekki að þekkja tæknilegar forsendur afhendingar á þjónustu muni verða styrkleiki fyrir fyrirtækið. Það eru bara tvö fyrirtæki á landinu sem hafa þessa alhliða getu og það eru Síminn og Vodafone.

Þú spurðir mig um veikleika. Ég held að það sé veikleiki fjarskiptamarkaðarins hversu flókinn hann er orðinn gagnvart öllum haghöfum – viðskiptavinum, fjárfestum o.s.frv. Það þarf að einfalda umræðuna um vöruna og þjónustuna. Þetta er sölu- og þjónustufyrirtæki sem afhendir nauðsynjavöru. Það liggur við að það sé orðið alvarlegra í dag þegar internetið liggur niðri en þegar heita vatnið er farið. Þetta er algjör nauðsynjavara. Það er ekki vandamál að fólk skilji ekki símann sinn eða tölvuna sína en einhvern veginn held ég að við höfum því miður verið of upptekin af tæknilegum hugtökum sem fáir skilja aðrir en þeir sem starfa í geiranum. Ég held að við þurfum bara að hjálpast að við að einfalda þetta. Fólk vill bara að þjónustan virki, að hún sé góð og hún sé á samkeppnishæfu verði. Ég myndi segja að það væru veikleikar sem við sem bransi þurfum að vinna á næstu árin.“

Nánar er rætt við Stefán í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .