Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland hækkaði í dag um 0,73% í um 919 milljón króna viðskiptum. Stóð hún í 1.707,17 stigum í lok dags.

Aðalsvísitala skuldabréfa stóð hins vegar nánast alveg í stað með 0,01% lækkun í um 948 milljón króna viðskiptum og endaði hún í 1.236,63 stigum.

Fjarskipti og Icelandair með mestu viðskiptin

Gengi bréfa Fjarskipta hf., móðurfélags Vodafone, hækkuðu mest eða um 3,51% í 219 milljón króna viðskiptum. Fæst hvert bréf félagsins nú á 47,20 krónur.

Bréf Icelandair hækkuðu í virði um 1,50% í næst mestu viðskiptum dagsins, eða sem nam tæpum 168 milljón krónum, og fæst hvert bréf félagsins nú á 23,65 krónur.

Sjóvá og Síminn einu sem lækkuðu

Bréf Sjóvá-Almennra og Símans voru þau einu sem lækkuðu í kauphöllinni í dag. Lækkuðu bréf Sjóvá-Almennra um 0,81% í 16 milljón króna viðskiptum og fæst hvert bréf félagsins nú á 14,73 krónur.

Bréf Símans lækkuðu um 0,65% í tæplega 103 milljón króna viðskiptum og fæst hvert bréf félagsins nú á 3,06 krónur.