Uppgjör viðskiptabankanna fyrir árið 2010 innihalda margvíslega matsliði. Helstu matsliðir í uppgjörum bankanna lúta að virði útlána, t.d. raunvirði yfirtekins útlánasafns, mat á lögmæti gengistryggðra útlána til fyrirtækja, notkun svonefndra FX-deltastuðla við virðisútreikning hluta gengistryggðra útlána o.fl.“

Þessar línur er að finna í skýrslu Seðlabankans um fjármálastöðugleika sem út kom nú um mánaðamótin, nánar tiltekið í kaflanum um fjármálafyrirtæki.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafa þessar fullyrðingar Seðlabankans vakið furðu innan bankakerfisins en þar á bæ kannist menn ekki við að mikil áhætta sé til staðar. Ennfremur herma heimildir blaðsins að margir furði sig á því að Seðlabankinn virðist ekki hafa verið í sambandi við bankana við vinnslu skýrslunnar og jafnvel ekki einu sinni leitað eftir upplýsingum um stöðu mála. Þá spyrji menn sig hvaða forsendur Seðlabankinn hafi til þess að fullyrða á þennan hátt. Viðskiptablaðið leitaði til stóru bankanna þriggja eftir staðfestingu á þessu og í Íslandsbanka vildu menn ekki tjá sig um málið auk þess sem ekki náðist í upplýsingafulltrúa Landsbankans. Iða Brá Benediktsdóttir, forstöðumaður samskiptasviðs Arion banka, sagði það hins vegar rétt að enn ríkti óvissa um virði útlána enda hefði það komið fram í ársreikningi bankans. Óvissan hefði þó minnkað mikið að undanförnu. Aðspurð um samskipti bankans við Seðlabankann sagði hún Seðlabankann ekki hafa haft samband við Arion vegna þessa atriðis en ætti í reglulegum samskiptum við bankann um hin ýmsu mál.

Tryggvi Pálsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Seðlabankans, segir það rangt að Seðlabankinn hafi ekki haft samband við bankana við vinnslu skýrslunnar. „Við funduðum með bankastjórum bankanna í aðdraganda skýrslunnar auk þess sem við erum í mjög reglulegu sambandi við sérfræðinga innan bankakerfisins eins og vera ber,“ segir hann.

Að sögn Tryggva er það ekki í verkahring Seðlabankans að fara yfir einstaka lánamál heldur sé það á könnu Fjármálaeftirlitsins og í samræmi við nýjan samstarfssamning stofnananna tveggja hafi verið haldinn dagslangur fundur í byrjun maí þar sem farið var yfir alla áhættuþætti. Þá sé byggt á ársreikningum bankanna.

„Að ætla að halda því fram að það sé engin óvissa tengd virðismati þessara útlána er algjör fjarstæða,“ segir Tryggvi.

Nánar um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak undir Tölublöð.