Þrátt fyrir að mikill meðbyr hafi verið á skuldabréfamörkuðum beggja vegna Atlantsála undanfarnar vikur vegna væntinga um minni verðbólgu og lægra vaxtastig eru blikur á lofti .Greiðslufall bandaríska ríkisins kann að vera yfirvofandi. Ástæðan er þó fyrst og fremst pólitísk fremur en efnahagsleg. Skuldir ríkissjóðs hafa nú náð lögbundnu hámarki og teikn eru á lofti að Repúblikanar í fulltrúadeildinni muni ekki samþykkja að hækka skuldaþakið án þess að fá í gegn verulegan niðurskurð á ríkisútgjöldum.

Sá háttur hefur verið hafður á frá árinu 1917 að lögbundið hámark er á skuldasöfnun alríkisstjórnarinnar. Þannig þarf þingið að samþykkja hækkun heimildarinnar til að ríkið geti sótt sér fé með skuldabréfaútgáfu þegar skuldirnar eru komnar upp í rjáfur.
Í gegnum tíðina hefur verið auðsótt að sækja um slíka hækkun til þingheims vestanhafs, enda hefur útfærslu þaksins verið breytt sjötíu og átta sinnum frá árinu 1960. Fjörutíu og níu sinnum í forsetatíð repúblikana og tuttugu og níu sinnum þegar demókrati hefur verið forseti.

Á undanförnum árum hafa þingmenn Repúblikanaflokksins í fulltrúadeildinni í auknum mæli teflt á tæpasta vað í samningaviðræðum um hækkun skuldaþaksins, þegar þeir hafa haft til þess bolmagn. Þetta á reyndar einungis við í þeim tilfellum þar sem repúblikanar hafa haft meirihluta í fulltrúadeildinni og demókratar setið á forsetastóli. Krafa þeirra hefur alltaf verið mikill niðurskurður til velferðarmála og annarra útgjalda. Aftur á móti gerðu þeir undantekningu þegar Donald Trump var forseti, en þá jókst skuldasöfnunin enn frekar og skuldaþakið hækkað ítrekað án nokkurra eftirmála.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út fimmtudaginn 26. janúar 2023. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.