Byggingarkrönum á höfuðborgarsvæðinu hefur fjölgað um sautján á milli ára, samkvæmt óformlegri talningu Fréttablaðsins , en fjöldi þeirra hefur stundum þótt gefa ákveðnar vísbendingar um efnahagsástand lands. Í blaðinu kemur fram að kranarnir séu 161 talsins í ár, 144 í fyrra, en árið 2010 voru þeir 70 (en þar af 24 í notkun). Árið 2007 voru hins vegar 320 byggingarkranar á höfuðborgarsvæðinu.

Finnbjörn A. Hermannsson, formaður Byggiðnar, segist í samtali við Fréttablaðið hafa áhyggjur af ofþenslu í efnahagsmálum og uppbyggingu hér á landi. „Áður en við lendum í einhverri bólu vil ég að við setjumst niður og skoðum hvort það er ekki hægt að stýra þessu með einhverjum hætti,“ segir hann.

Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins, segir hins vegar við Fréttablaðið að fjarstæðukennt sé að tala um bólumyndun í þessum efnum. „Við erum með bransa sem dróst saman á árunum 2009 og 2010 og var enn að dragast saman árið 2012 um 50, 60 og 70 prósent,“ segir hann og bendir jafnframt á að byggingarbransinn sé margfalt minni en hann var fyrir hrun.