Fjársterkum Bretum, sem eru eins og gefur að skilja hundóánægðir með fyrirhugaðar skattahækkanir bresku ríkisstjórnarinnar, berast nú gylliboð frá svissneskum héröðum í þeim tilgangi að fá þá til að færa lögheimili sín og fyrirtækja sinna til Sviss.

Þetta kemur fram í umfjöllun breska blaðsins Financial Times (FT) en sem kunnugt er eru skattar mun lægri í Sviss en gengur og gerist í mörgum öðrum Evrópuríkjum en þá er einnig mikil samkeppni milli einstakra héraða um lága skatta.

Að sögn FT sækja svissnesku héröðin sérstaklega á stjórnendur vogunarsjóða en margir slíkir hafa síðustu mánuði og ár flutt lögheimili sín til Sviss í þeim tilgangi að greiða lægri skatta.

Þannig var í síðustu viku haldinn morgunverðarfundur með yfirskriftinni „Flutt til Sviss“ (e. Moving to Switzerland) á Metropolitan hótelinu í Lundunum. Þar ávarpaði Peter Müllhaupt, embættismaður frá Zug héraði í Sviss, fundinn og sagði meðal annars að með því að flytja til Zug hérðast stæðust mönnum til boða að „greiða lægstu skattana í Sviss á meðan þeir njóta þess að búa í litlum bæ við vatnið öðru megin og fjöllin hinum megin,“ eins og það er orðað í frétt FT.

Zug hérað í Sviss býður upp á eina af lægstu sköttunum í Sviss að sögn FT. Þá hefur blaðið eftir Jonathan Ivinson, lögfræðing hjá Hogan & Hartson, sem aðstoðað hefur Breta við að flytja lögheimili sín til Sviss að eftir að breska ríkisstjórnin lagði fram „apríl frumvarpið“ svokallaða íhugi margir fjárfestir einstaklingar nú sinn gang og það að flytjast til Sviss sé einn þeirra möguleika sem í boði eru.

Apríl frumvarpið svokallaða, sem hér var minnst á, var eins og nafnið gefur til kynna fyrst lagt fram í apríl s.l. en það felur í sér að tekjuskattur einstaklinga hækkar í þrepum um næstu áramót og getur farið í allt að 50% á þá efnameiri.

„Menn eru bæði fúlir yfir þeim skattaprósentum sem lagðar hafa verið fram en auk þess gera menn ráð fyrir því að ríkisstjórnin láti ekki staðar numið hér,“ hefur FT eftir Ivinson.

Stuart Fraser, starfsmaður City of London Corporation er þó ekki sammála því að skynsamlegt sé að flytja lögheimili sitt eða fyrirtæki til Sviss.

„Það er enn hægt að græða pening í Lundúnum,“ segir hann í samtali við FT.