Grikkland vantar 115 milljarða evra, jafnvirði um 19 þúsund milljarða króna, til að greiða skuldir á næstu þremur árum. Alls nemur fjárþörf gríska ríkisins um 172 milljörðum evra, samkvæmt nýjum gögnum framkvæmdastjórnar Evrópu, og hafa þeir tryggt sér um 57 milljarða í gegnum neyðaraðstoð björgunarsjóðs ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Fjallað er um vanda Grikklands í Financial Times í dag. Þegar niðurskurðaráætlun var samþykkt á gríska þinginu í síðustu viku var talið að Grikkland hefði þar með tryggt sér 28 milljarða evra fyrirgreiðslu og að Evrópuasmbandið myndi samþykkja 120 milljarða evra björgunarpakka, sem myndi tryggja að komið yrði í veg fyrir greiðslufall til ársins 2014.

Nú er aðeins ein greiðsla tryggð, um 12 milljarðar evra sem búist er við að verði samþykktir til greiðslu næsta föstudag í stjórn AGS. Vonir standa til að einkaaðilar sem eiga grísk ríkisskuldabréf samþykki að falla frá hluta krafna sinna.

Matsfyrirtækið Standard & Poor's gaf út yfirlýsingu í gær og sagði að núverandi áætlun jafngildi greiðslufalli og lækkaði lánshæfiseinkunn gríska ríkisins enn frekar. Sú yfirlýsing kom áætlunum í uppnám og óvissa ríkir um hvort franskir, þýskir og grískir bankar séu tilbúnir til að falla frá kröfum sínum. Bankarnir eru stórir lánveitendur landsins. Einungis grískir bankar hafa samþykkt að taka þátt og koma til móts við ríkið.

Seðlabanki Evrópu hefur gefið út að hann muni halda áfram að veita gríska ríkinu fyrirgreiðslu svo lengi sem eitt af þremur stóru matsfyrirtækjunum lýsi ekki yfir að neyðaraðstoðin jafngildi greiðslufalli við mat á stöðu ríkisins.