*

föstudagur, 28. janúar 2022
Innlent 23. ágúst 2019 14:15

Fjarvera forsætisráðherra „stórundarleg“

Ákvörðun Katrínar um að hitta ekki Pence misvel tekið á þingi. Ekki forgangur að hitta „nákvæmlega þennan mann“

Ritstjórn
Mike Pence var kjörinn varaforseti Bandaríkjanna samhliða kjöri Donald Trump sem forseta.
epa

Þingflokksformenn Viðreisnar, Miðflokksins og Samfylkingar voru allir gagnrýnir á ákvörðun Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um að sækja fremur norrænt verkalýðsþing en að taka á móti varaforseta Bandaríkjanna að því er Morgunblaðið segir frá. Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá kemur Mike Pence til landsins 3. september á leið sinni til Írlands og Bretlands.

Þór Whitehead sagnfræðingur hefur sagt við erlenda miðla að ákvörðunina ekki eiga sér hliðstæðu, og Ólafur Þ. Harðarson prófessor í stjórnmálafræði við HÍ segir ákvörðunina óvenjulega. „Það er greinilegt að þetta hefur vakið töluverða athygli erlendis og augljóst að margir túlka þetta sem svo að hún sé að láta í ljós afstöðu sína til ríkisstjórnar Trumps, hvort sem það er rétt eða rangt,“ segir Ólafur.

Tekur hagsmuni flokks yfir land og þjóð

Gunnar Bragi Sveinsson þingflokksformaður Miðflokksins gefur lítið fyrir skýringar Katrínar. „Þetta eru rök sem halda engu. Þarna er hún fyrst og fremst að taka hagsmuni flokks síns fram yfir hagsmuni lands og þjóðar. Fyrir Ísland skiptir jú meira máli að eiga í góðu samstarfi og samskiptum við Bandaríkin en verkalýðsforystuna á Norðurlöndum,“ segir Gunnar Bragi segir ákvörðunina sérstaka.

„Þessi ákvörðun forsætisráðherra er í besta falli stórundarleg. Hér er að líkindum um að ræða annan valdamesta mann heims, varaforseta ríkis sem hefur verið helsti bandamaður okkar, og við höfum átt í sérstöku samstarfi við Bandaríkin áratugum saman.“

Velur frekar að messa yfir eigin söfnuði

Hins vegar voru fulltrúar Pírata og Flokks fólksins, auk stjórnarflokkanna á annarri skoðun. Bæði Guðmundur Ingi Kristinsson formaður þingflokks Fólks flokksins og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir formaður þingflokks Pírata segjast skilja Katrínu vel. „Ég myndi ekki vilja hætta við mín plön til að hitta nákvæmlega þennan mann,“ segir Þórhildur Sunna.

Hanna Katrín Friðriksson formaður þingflokks Viðreisnar segir að þó Katrín forgangsraði auðvitað eigin verkefnum þá „hefði [hún] átt að nýta tækifærið, taka á móti honum og ræða brýn málefni á borð við loftslagsmál og öryggis- og varnarmál,“ segir Hanna Katrín. „Ég verð samt að segja að ég er mjög hissa á þessari forgangsröðun því forsætisráðherra Íslands á alla jafna gott aðgengi að aðilum vinnumarkaðar á Norðurlöndum.“

Oddný G. Harðardóttir þingflokksformaður Samfylkingar segir þarna glatast tækifæri til að koma mikilvægum skilaboðum á framfæri við varaforsetann. „Það að velja frekar að tala við verkalýðsleiðtoga á Norðurlöndum er bara eins og að messa yfir eigin söfnuði,“ segir Oddný.