Kauphöllin í Frankfurt.
Kauphöllin í Frankfurt.
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)
Í gær voru fjögur ár frá því að gamla Úrvalsvísitalan OMXI15 náði hámarki í 9016,48 stigum og nam hækkunin alls 328,76% frá því útreikningar hófust og var sú almenna hækkun Úrvalsvísitölunnar einsdæmi meðal þróaðra hagkerfa eins. Útreikningar Úrvalsvísitölunnar hófust í ársbyrjun 1998.

"Hækkun vísitölunnar mátti að talsverðu leyti rekja beint eða óbeint til hækkunar á hlutabréfaverði bankanna. Samanlagt vægi Kaupþings, Landsbankans og Glitnis í Úrvalsvísitölunni hafði í upphafi árs 2004 verið um 42% en það jókst nær samfellt á tímabilinu þar til það var orðið um 72% um mitt ár 2008. Séu önnur fyrirtæki í fjármálaþjónustu tekin með breyttist hlutfallið frá tæplega 47% í ársbyrjun 2004 í rúmlega 88% um mitt ár 2008," segir í skýrslu rannsóknarnefndar alþingis um bankahrunið.

"Samanburður á verðhreyfingum fyrirtækja í fjármálaþjónustu á Íslandi og á Norðurlöndunum almennt sýnir svipaða mynd sem sjá má með því að bera saman þróun vísitölu fjármálafyrirtækja á Íslandi (OMX Iceland Financials vísitöluna) og vísitölu fjármálafyrirtækja á Norðurlöndunum 23 (OMX Nordic Financials vísitöluna). Sá samanburður nær aftur til ársbyrjunar 2005 þegar  útreikningur á OMX Iceland Financials vísitölunni hófst en frá þeim tíma og til 18. júlí 2007 þegar hlutabréfaverð stóð í hæstu hæðum hækkaði íslenska fjármálavísitalan um 183% á meðan sú norræna hækkaði um 66%."