*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Innlent 6. maí 2018 16:05

Fjögur ár stutt til að breyta borg

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir uppbyggingu í nágrannasveitarfélögunum vera áratug á eftir áætlun. Reykjavík sé að taka forystuna á höfuðborgasvæðinu.

Gunnar Dofri Ólafsson
Haraldur Guðjónsson

Uppbygging í Reykjavík hefur verið gagnrýnd fyrir að vera of mikil á sumum svæðum og fyrir að ganga ekki nógu hratt. Í þessu samhengi benda Samtök iðnaðarins (SI) á að Reykjavík er eftirbátur flestra nágrannasveitarfélaganna í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis miðað við höfðatölu. Hvers vegna er það?

„Reykjavík er að taka forystu í þróun höfuðborgarsvæðisins miðað við tölurnar sem SI birta. Það er að draga úr verkefnum sem eru að fara af stað í útjaðri höfuðborgarsvæðisins. Hverfin sem eru að byggjast í Mosfellsbæ og Garðabæ eru tíu árum á eftir áætlun. Þetta er Helgafellslandið og Urriðaholtið þar sem voru komnar götur, ljósastaurar og gangstéttar fyrir meira en tíu árum. Það er bara verið að klára það á meðan Reykjavík er að koma með nýja og spennandi reiti í borgarmiðjunni þar sem fólki finnst eftirsóknarvert að búa. Allt höfuðborgarsvæðið er að þróast frá því að fara út á við þannig að á hverju heimili séu tveir bílar og allir troðast eftir stofnbrautum í vinnuna yfir í allt aðra og grænni borgarþróun þar sem verið er að bæta við byggingarheimildum og þétta byggð.

Gömul atvinnu- og iðnaðarhverfi eins og í Elliðaárvoginum eru að ganga í endurnýjun lífdaga rétt eins og við sáum hjá gamla Slippnum og Hótel Marina. Þar er orðið eitthvað mesta mannlífssvæði sem við höfum séð með gömlu verbúðunum sem átti að rífa en er orðinn vettvangur veitingastaða og hjólabúða. Allur Grandinn er svo að smitast af þessu. Við erum að þróast í átt að því að vera meiri borg með þeim lífsgæðum sem því fylgir. Engum hefði til dæmis dottið í hug fyrir tuttugu árum að umbreyta Hlemmi í mathöll. Nú er búið að byggja þarna 500 íbúðir og eftir að við tókum Hverfisgötuna í gegn eru að byggjast aðrar 500 meðfram götunni og niður að Hafnartorgi. Miðbærinn, sem hafði verið í mikilli krísu, er núna þannig að bæði hefur fermetraverð rokið upp og það er barist um plássin í hliðargötunum allt um kring. Við erum líka að stækka miðborgina niður að Granda og upp á Hlemm og ætlum að endurnýja Hlemmsvæðið á næsta kjörtímabili. Stóra barátta borga er um næstu kynslóðir sem velja sér stað í borgum um allan heim. Þá þurfum við að tryggja góð kjör og þjónustu og þau lífsgæði sem fást í borgum. Þess vegna erum við líka að þróa grænu svæðin um alla borg og fjárfesta í íþróttamannvirkjum.“

Frekar í slopp en á þing

Sérðu fyrir þér að fara í landsmálin?

„Það hefur oft komið til tals og það hefur ekki heillað mig. Borgin sem fyrirbæri heillar mig hins vegar mjög mikið. Borgarmál í íslensku samhengi eru mjög vanmetin þegar kemur að því að hreyfa við málum og koma málum á dagskrá. Ég sé miklu frekar fyrir mér að fara djúpt inn í skáp og sækja læknasloppinn ef eitthvað annað tekur við í mínu lífi. En eitt kjörtímabil er býsna stuttur tími til að leiða markverðar breytingar í borg.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: kosningar Dagur B. Eggertsson x18