*

föstudagur, 5. júní 2020
Innlent 25. október 2019 13:25

Fjögur atriði meira íþyngjandi

Viðskiptaráð tiltekur fjögur dæmi um hvernig samkeppnislög á Íslandi séu meira íþyngjandi en á Norðurlöndunum.

Ritstjórn
Ásta Sigríður Fjeldsted er framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.
Haraldur Guðjónsson

Viðskiptaráð birti í morgun lista yfir fjögur atriði í samkeppnislögum sem ráðið segir til marks um að löggjöfin sé meira íþyngjandi hér á landi miðað við annars staðar á Norðurlöndunum. 

Töluverð umræða hefur sprottið upp um samkeppnislög á Íslandi í vikunni eftir að Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið birti drög að frumvarpi til breytinga á löggjöfinni.  

Inngrip í fyrirtæki óháð broti, er efst á lista Viðskiptaráðs, sem segir að ólíkt því sem tíðkast á Norðurlöndunum sé Samkeppniseftirlitinu (SKE) heimilt að grípa inn í rekstur fyrirtækja óháð því hvort lög hafi verið brotin. 

Haldlagning gagna, er næst á listanum og segir ráðið SKE hafa að meginreglu heimild til að leggja hald á gögn við rannsókn ólíkt því sem tíðkast á Norðurlöndunum. 

Undanþága til samstarfs, er þriðja dæmið á listanum. Hér þurfi fyrirtæki samþykki Samkeppniseftirlitsins til að hefja samstarfs sem hagnast neytendum á meðan aðeins þurfi að tilkynna um samstarfið á hinum Norðurlöndunum. 

Málskotsréttur SKE til að kæra úrskurð æðra stjórnvalds til dómstóla, er síðasta dæmið á lista Viðskiptaráðs, sem segir slíka heimild ekki til staðar í öðrum löndum Norðurlandanna