Þrotabúi Fons hafa borist fjögur bindandi tilboð í öryggisfyrirtækið Securitas.

Óskar Sigurðsson, skiptastjóri búsins, segir tilboðin vera bindandi fram til 18. apríl næstkomandi. Þá verði tilkynnt um hvort og þá hvaða tilboði verði tekið.

Í byrjun mars var sagt frá því að átján óskuldbindandi tilboð hefðu borist í fyrirtækið. Securitas er verðmætasta eign þrotabús Fons, en kröfur í búið nema um 40 milljörðum króna.

Fons var í eigu Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar áður en félagið var sett í þrot. Fons keypti Securitas á sínum tíma af Teymi, sem þá var í eigu félaga tengdum Baugi Group, á 3,8 milljarða króna.

Afar ólíklegt er talið að slíkar upphæðir fáist fyrir félagið nú, enda var eigið fé þess í árslok 2008 um hálfur milljarður króna og 130 milljóna króna tap var á rekstrinum það árið.