Stór áform eru um uppbyggingu á landeldi í og við Þorlákshöfn. Gangi öll verkefnin eftir sem eru á teikniborðinu gæti ársframleiðsla á eldisfiski á svæðinu numið tugum þúsunda tonna og skapað mikil verðmæti.

Sveitarfélagið Ölfus hefur það til skoðunar í samstarfi við aðra að stofnað verði nýtt orkufyrirtæki á svæðinu til þess að tryggja orkuafhendingu til orkufreks iðnaðar og matvælaframleiðslu sem þar byggist upp.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, segir mikinn vöxt í öllu sem tengist fiskeldi á Íslandi um þessar mundir. Um allan heim sé fiskeldi að vaxa mjög hratt. Fjárfestar og stjórnvöld séu að átta sig á því að eitt af helstu verkefnum framtíðar er að brauðfæða mannkynið.

Fordæmalaus tækifæri

„Á næstu 30 árum þurfum við að framleiða jafn mikið af matvælum og við höfum gert síðustu 8 þúsund árin. Það verður ekki gert með hefðbundnum hætti. Ísland á fordæmalaus tækifæri til þess að byggja upp sterka og nýja atvinnugrein sem byggir á þeirri þekkingu og reynslu sem við höfum sem fiskveiði- og fiskvinnsluþjóð. Þarna blasa við okkur risavaxin tækifæri en við þurfum að bregðast skjótt við. Við höfum þekkinguna, orkuna, vatnið og hreinleikann. En til þess að við fullnýtum tækifærin þurfa stjórnmálamenn að beina sjónum sínum að nýsköpunartækifærum í matvælavinnslu almennt. 28% af losun gróðurhúslofttegunda má rekja til matvælaframleiðslu. Ef við stígum skynsamlega fram getur eitt stærsta framlag Íslands til loftslagsmála orðið framleiðsla á umhverfisvænum matvælum. Þar er fiskeldi í sjó og á landi mjög nærtækir og arðbærir valkostir,“ segir Elliði.

Seiðaeldi er grunnurinn að laxeldi og umfangsmikið seiðaeldi fer nú þegar fram í Ölfusinu á vegum fyrirtækjanna Ísþórs, Laxa, Landeldis og Samherja.

Fjögur verkefni

Af verkefnunum fjórum á sviði landeldis í Ölfusi er eitt komið talsvert áleiðis en önnur skemmra. Það verkefni sem hvað lengst er komið er á vegum Landeldis ehf., fyrirtækis í eigu innlendra einstaklinga. Fyrirtækið leigir þrjár lóðir í Þorlákshöfn og hyggst koma þar upp einu stærsta landeldi á Íslandi, 20.000 tonna eldi. Framkvæmdir eru hafnar. Fiskeldið Ölfus er með í undirbúningi landeldi þar sem ráðgert er að verði einnig 20.000 tonna framleiðslugeta. Þá er Kaupfélag Skagfirðinga með áform um landeldi í Keflavík skammt frá Þorlákshöfn á 10-20.000 tonnum.

„Nú nýlega funduðum við einnig með sterkum og sérfróðum aðilum sem stæðu hugsanlega að baki fjórða verkefninu hér í landeldi. Sá hópur stendur saman af innlendum aðilum í samstarfi við erlenda aðila. Verði öll þessi áform að veruleika gæti framleiðslumagnið verið farið að nálgast 80.000 tonn á ári. En þess ber þó að geta að ennþá er þetta fugl í skógi en ekki í hendi.“

Þó má ljóst telja að áhugi fjárfesta beinist í miklum mæli að Þorlákshöfn fyrir starfsemi af þessu tagi. Elliði segir það reyndar ekki koma á óvart því Þorlákshöfn sé í einstæðri landfræðilegri stöðu. Þar er vaxandi útflutningshöfn með möguleika á útflutningi á mánudögum og föstudögum stystu siglingaleið beint á Evrópumarkað. Því til viðbótar sé berglagið við Þorlákshöfn einstaklega heppilegt til öflunar jarðsjós og ferskvatns. Þá sé Þorlákshöfn í innan við klukkustundarlöngum akstri frá 80% af íbúum landsins.

Mikill fjárfestingakostnaður

Elliði  bendir á að mikill fjárfestingakostnaður sé við hvert verkefni. Hver eldisstöð til framleiðslu á um 20 þúsund tonnum af laxi kosti um átta milljarða króna og verðmæti standandi lífmassi, 13.000 tonna, er um 8 milljarðar króna sem er svipað og listaverð á tveimur Boeing 737 MAX flugvélum. Hver stöð kallar á dælingu á 12 rúmmetrum af sjó á sekúndu en til samanburðar er meðalrennsli Elliðaáa um 5 rúmmetrar á sekúndu. Orkuþörfin er um 120 megavattstundir og fóðurþörfin um 23.000 tonn á ári. Hver eldisstöð af þessari stærð leiði af sér 200 störf auk fjölda afleiddra starfa, þar af 70 stöðugildi við afurðavinnslu og pökkun.

Skoða stofnun orkuveitu

Hann segir að það sem hann vilji sjá sem fyrstu skref hins opinbera í uppbyggingu af þessu tagi sé að raforkukostnaður lækki til þeirra sem stunda umhverfisvæna matvælaframleiðslu, jafnt í landbúnaði og sjávarútvegi. Það samkeppnisforskot sem landið hafði eitt sinn vegna ódýrrar orku sé að hverfa hratt og örugglega því raforkuverð hafi lækkað víða erlendis. Hann kveðst undrast tómlæti hins opinbera gagnvart þessum stóru tækifærum sem blasa við á sviði umhverfisvænnar matvælaframleiðslu.

Eins og að ofan greinir er raforkuþörf 20.000 tonna landeldisstöðvar um 120 megavattstundir. Elliði segir að skórinn kreppi helst gagnvart þeim innviðum sem snúa að orkumálum.

„Við höfum hreinlega verið að skoða það að stofna nýja orkuveitu. Þar er innantómt að státa sig af því að búa í einu orkuríkasta landi heims en geta ekki afhent orku fyrir umhverfisvæna matvælaframleiðslu. Það er í raun algjörlega fráleit staða. Þess vegna erum við að skoða þessi mál af fullri alvöru í samstarfi við fjármálafyrirtækið Summu, lífeyrissjóði og HS Orku. Niðurstaðan gæti orðið sú að við borum eftir heitu vatni sérstaklega til raforkuframleiðslu fyrir fiskeldi,“ segir Elliði.