Alls eru fjögur íslensk fyrirtæki sem vinna að þróun hugbúnaðar fyrir sýndarveruleikavélar. Stærst þeirra er tölvuleikjafyrirtækið CCP en auk þess vinna sprotafyrirtækin Sólfar, Aldin dynamics og Mure/Breakroom að fjölbreyttum lausnum fyrir ýmsar sýndarveruleikavélar.

Í síðustu viku kom í ljós að Ísland væri eitt 20 landa sem geta pantað sýndarveruleikabúnaðinn Oculus Rift en hann mun fara í almenna sölu í mars. Hann mun kosta 699 evrur í forpöntun, eða um 98 þúsund íslenskar krónur og með honum fylgja tölvuleikirnir Lucky's Tale og EVE: Valkyrie en sá síðastnefndi er framleiddur af CCP.

„Við hjá CCP höfum átt í mjög góðu samstarfi við Oculus, allt frá því fyrirtækið var að stíga sín fyrstu skref með búnað sinn Oculus Rift,“ segir Eldar Ástþórsson upplýsingafulltrúi CCP. „Það samstarf hefur haldið áfram verið farsælt og traust eftir kaup Facebook á fyritækinu. Ég held að það sé óhætt að segja að það sé engin tilviljun að Ísland sé meðal þeirra 20 landa í heiminum sem hægt er panta Oculus Rift til.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Vafi ríkir um alþjónustubyrði Íslandspósts.
  • Staða einkaskóla á höfuðborgarsvæðinu.
  • Formaður framtakssjóðs kallar á aukna fjárfestingu.
  • Umfjöllun um sprotafyrirtækið Study Cake.
  • Forstjóri Kauphallarinnar á von á nokkrum nýjum skráningum á nýja árinu.
  • Fiskifræðingur veiðimálastofnunar spáir í næsta veiðisumar.
  • Svipmynd af Rún Ingvarsdóttur, sem ráðin var til markaðs- og samskiptadeildar Landsbankans.
  • Ítarlegt viðtal við Jens Garðar Helgason, formann SFS.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs sem fjallar um endalok Icesave-málsins.
  • Óðinn fjallar um efnahagsleg óveðursský.