Búist er við fjórum kauptilboðum í símafyrirtækið BTC, samkvæmt heimildum Dow Jones-fréttastofunnar, en Novator ákvað fyrr á þessu ári að ráða Lehman Brothers til að finna hugsanlega kaupendur að 65% félagsins í búlgarska fyrirtækinu.

Formleg ákvörðun um söluna hefur þó ekki verið tekin og Lehman-bankinn var einungis fenginn til þess að vega og meta möguleika á sölu.

Heimildarmenn Dow Jones segja að kauptilboð séu væntanleg á morgun frá fjárfestingasjóðunum Mid-Europa Partners, Texas Pacific og Warburg Pincus og tyrknesku símafyrirtækjunum Turk Telekom og Turkcell.

Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, hefur tryggt sér kaupréttinn að 65% hlut í BTC. Landsbankinn í Lúxemborg er einnig skráður fyrir 13,38% hlut í félaginu og segja heimildarmenn Viðskiptablaðsins að bankinn hýsi hlutinn fyrir þriðja aðila.

Markaðsvirði BTC er 1,7 milljarðar evra og búist er við kauptilboðum í kringum 1,9 milljarða evra.