Enn er verið að skýra og þrengja reglur varðandi ferðamannagjaldeyri, sem Íslendingar fá undanþágu til að kaupa þegar þeir fara til útlanda. Samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi Árna Páls Árnasonar, efnahags- og viðskiptaráðherra, verða Íslendingar að uppfylla fjögur skilyrði til að geta tekið út erlendan gjaldeyri.

Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að sett sé það skilyrði að sá sem kaupir gjaldeyrinn, þ.e. sá sem tilgreindur er á farseðli sem framvísað er við kaupin, beri gjaldeyrinn sjálfur með sér úr landi og er það nýmæli miðað við þær reglur sem settar hafa verið um gjaldeyriskaup.

Annað sem er nýtt samkvæmt frumvarpinu er það skilyrði sem sett verður að sá sem ætlar að ferðast sé raunverulegur eigandi þeirra fjármuna sem hann tekur út eða notar til kaupa á hinum erlenda gjaldeyri.

Í þriðja lagi þarf gjaldeyririnn að vera ætlaður til að greiða kostnað vegna ferðalaga erlendis og þarf viðkomandi að sýna fram á það með framvísun farmiða eða kvittunar að hann hyggist ferðast til útlanda innan fjögurra vikna.

Í fjórða lagi er lagt til að heimildin verði bundin við 350.000 kr. fyrir hvern einstakling í hverjum almanaksmánuði og að sú upphæð verði ekki hærri þótt viðkomandi hyggi á fleiri en eina ferð í mánuði.

Tilgangur þessarar undanþágu um kaup á erlendum gjaldeyri er samkvæmt frumvarpinu fyrst og fremst að gæta þess að einstaklingar geti þrátt fyrir gjaldeyrishöftin haft með sér nægilegt reiðufé þegar þeir leggja í ferðalög til útlanda án þess að það vinni gegn markmiðum laganna. Skilyrðunum er ætlað að koma í veg fyrir að hægt sé að misnota heimildina.