Sparifjárreikningur Auðar hefur verið í boði í einn mánuð og segir Ólöfu Jónsdóttur, forstöðumanni Auðar, að móttökurnar hafi verið framar björtustu vonum. „Viðskiptavinum Auðar hefur fjölgað jafnt og þétt á þessum fyrsta mánuði og þeir eru á öllum aldri – ungir sem aldnir. Það er ljóst að mikil eftirspurn er eftir sanngjarnri fjármálaþjónustu á netinu og því spennandi tímar framundan,“ er haft eftir Ólöfu í fréttatilkynningu.

Í fréttatilkynningu segir að Auður bjóði sparnaðarreikninga fyrir einstaklinga með 4% vöxtum sem greiddir eru mánaðarlega. „Sparnaðarreikningarnir eru óbundnir og því alltaf lausir til úttektar. Markmið Auðar er að bjóða sparifjáreigendum betri vexti en þekkst hafa hingað til með því að nýta tæknilausnir og stöðu Kviku sem banka án útibúanets. Öllum kostnaði er haldið í lágmarki og er það svigrúm nýtt til að bjóða viðskiptavinum betri kjör en fást hjá öðrum bönkum.

Vöruframboð Auðar miðar því við að viðskiptavinir afgreiði sig sjálfir, en á móti þá fái þeir umtalsvert betri vexti en aðrir bankar bjóða sem eru 0,3% til 2,15%. Lágmarksupphæð reikninga er 250.000 krónur en heimilt er að hafa reikning undir lágmarksupphæð í 180 daga,“ segir í fréttatilkynningu.

„Auður er gott dæmi um það hvernig bankakerfið er að þróast þar sem stór hluti þjónustunnar fer nú fram á netinu sem skilar sér svo í betri kjörum fyrir viðskiptavini,“ segir Ólöf.