Samfylkingin vill lengja fæðingarorlofið í tólf mánuði og hækka greiðsluþakið strax upp í 600.000 krónur. Kom þetta fram í ræðu Oddnýjar Harðardóttur, formanns flokksins á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í dag.

Í ræðunni sagði hún meðal annars að í útreikningum flokksins sé gert ráð fyrir því að 30 þúsund fjölskyldur fái hærri barnabætur og 10 þúsund fjölskyldur fái barnabætur sem fá þær ekki núna. Þetta muni þýða verulegar kjarabætur fyrir börnin.

Ætlunin sé að fjölga verulega leiguíbúðum og að það sé raunhæft að gera ráð fyrir 4.000 íbúðum til viðbótar á næsta kjörtímabili, og þúsund námsmannaíbúðum um allt land.

Þá eigi lífeyrisþegar að fá að lágmarki 300 þúsund krónur á mánuði og afturvirkar greiðslur frá 1. maí á þessu ári og því næsta.

Hún segir að hægt sé að fjármagna þessi loforð með úttboði á aflaheimildum, raforkugjaldi og með gistingu og afþreyingu fyrir ferðamenn í almennu þrepi virðusaukaskattskerfisins. Með þrepaskiptu skattkerfi og auðlegðarskatti á miklar eignir til viðbótar við tekjunar af auðlindunum sé hægt að fjármagna þessi loforð án þess að ýta undir verðbólgu á sama tíma.