Þrotabúi Milestone bárust fjögur óskuldbindandi tilboð í 92 prósenta hlut þess í makedóníska Stater Banka. Þar sem þrotabú mega ekki eiga fjármálastofnanir í Makedóníu þá missti félagið leyfi til að halda á hlutnum við gjaldþrot Milestone í september síðastliðnum.

Búið fékk leyfi frá Seðlabanka Makedóníu til að selja hlutinn en þarf að gera það fyrir 25. apríl 2010.

Þetta kemur fram í skýrslu skiptastjóra búsins sem kynnt var kröfuhöfum síðastliðinn mánudag. Viðskiptablaðið hefur hana undir höndum.

Samkvæmt skýrslunni er Stater Banka helsta eign þrotabús Milestone, en félagið eignaðist hann í árslok 2007. Í beiðni fyrrum stjórnar Milestone um gjaldþrotaskipti, sem var send Héraðsdóm Reykjavíkur í september síðastliðnum, kom fram að eignir búsins væru metnar á rúmlega fimm milljarða króna.

Samkvæmt kröfulýsingarskrá nema skuldir félagsins um 95 milljörðum króna. Því er ljóst að kröfuhafar félagsins munu fá lítið sem ekkert upp í kröfur sínar.

Seðlabankinn hefði getað leyst hlutinn til sín

Í skýrslu skiptastjórans segir að „við gjaldþrot Milestone ehf. missti félagið leyfi Seðlabanka Makedóníu til að halda á ráðandi hlut í bankanum.“ Hann hafi hins vegar óskað eftir leyfi Seðlabankans til að selja hlutinn. Það leyfi fékkst 25. september síðastliðinn og gildir til sex mánaða.

Þrotabúið hefur því fjóra mánuði til að koma eignarhlutnum í verð. Skiptastjórinn segir í skýrslu sinni að „afar mikilvægt var að fá leyfi til að selja bankann, en að öðrum kosti hefði seðlabankinn getað leyst eignarhlutinn til sín [...] Alls bárust fjögur óskuldbindandi tilboð í bankann og á síðustu vikum hafa tilboðsgjafar unnið að áreiðanleikakönnun á bankanum“.

Frestur til að skila inn tilboðum í Stater Banka rann út síðastliðinn föstudag en var framlengdur um nokkra daga. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að um Austur-evrópska fjárfesta sé að ræða.

Stater Banka á auk þess 30 milljóna króna kröfu á Milestone. Um er að ræða kröfu sem myndaðist í þríhliða viðskiptum Milestone, Stater Banka og Glitnis eftir bankahrunið í október 2008. Stater Banka átti innstæður í erlendum myntum hjá Glitni áður en að sá banki hrundi og samkvæmt skýrslunni gengi viðskiptin út á að „Milestone greiddi Stater Banka til baka hluta af innstæðu Stater Banka hjá Glitni, gegn því að Glitnir greiddi Milestone samsvarandi upphæð í íslenskum krónum“.

Deilt er um hvort að þrotabú Milestone eða Stater Banka beri áhættuna af kröfu vegna þessarrar upphæðar sem búið er að lýsa í þrotabú Glitnis. Ljóst þykir að lausn í málinu verður að liggja fyrir áður en að Stater Banka verður seldur.

Makedónískur dvergbanki

Stater Banka er afar smár í sniðum miðað við fjármálastofnun en heildareignir hans í lok árs 2008 námu um 6,7 milljörðum króna á núverandi gengi. Bankinn tapaði um 32 milljónum króna á síðasta ári samkvæmt ársreikningi. Eignarhlutur Milestone í Stater Banka var sagður vera 1,1 milljarða króna virði í drögum að ársreikningi félagsins fyrir árið 2008. Ekki er ljóst hvert söluandvirðið verður takist að selja bankann.