Velta með hlutabréf í Marel hefur numið um 3,7 milljörðum króna það sem af er degi og hafa hlutabréfin lækkað um 2,82% það sem af er degi.

Viðskiptablaðið greindi frá því í lok október að sjóður á vegum Columbia Wanger Asset Management hefði selt hlutabréf í Marel fyrir rúmlega milljarð króna. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins skýrist þessa mikla velta dagsins af því að sjóðurinn hefur nú selt öll hlutabréf sín í Marel.

Fyrir söluna í lok október átti sjóðurinn 4,89% hlutafjár í fyrirtækinu, en eignarhluturinn nemur 3,94% miðað við hluthafalista frá 3. nóvember. Er sjóðurinn þannig skráður fyrir 28.993.573 hlutum. Markaðsvirði hlutarins miðað við gengi dagsins í dag er því um 3,5 milljarðar króna.

Sjóðurinn keypti 5,2% hlut í Marel í september 2009 á genginu 59. Gengi hlutabréfa Marels er nú 120 krónur á hlut.