Fjóla Signý Hannesdóttir, eigandi og framkvæmdastjóri heildsölunnar Run2, umboðsaðila Brooks á Íslandi, hefur tekið við rekstri verslunarinnar Fætur Toga. Verslunin, sem sérhæfir sig í sölu á hlaupaskóm og innleggjum, mun opna aftur á Höfðabakka 3 á morgun kl. 11.

Verslunum Eins og fætur toga var tímabundið lokað í síðustu viku eftir að félagið Eins og fætur toga ehf., í eigu Lýðs B. Skarphéðinssonar og Elvu Bjarkar Sveinsdóttur, var tekið til gjaldþrotaskipta líkt og Vísir fjallaði um í vikunni.

Fjóla Signý segir að starfsemi búðanna verði haldið áfram í nánast óbreyttri mynd. Verslunin muni áfram bjóða upp á vörur frá ‏Brooks, Fusion, CompresSport og fleirum.

„Fætur Toga hafa veitt frábæra þjónustu síðastliðin ár við sölu á Brooks hlaupaskóm og íþróttafatnaði, en einnig í göngugreiningum. Við erum glöð að geta haldið þessari gæðaþjónustu óskertri."

Hún tekur fram að þeir sem pantað hafa innlegg áður en verslunin lokaði muni fá þau afhent eins fljótt og mögulegt er eftir enduropnun. „Auk þess munu gjafabréf, sem fólk átti áður, gilda áfram í versluninni.”

Fjóla Signý er sjálf öllum hnútum kunnug þegar kemur að íþróttum og hlaupum, en hún hefur keppt fyrir Íslands hönd í grindahlaupi og fleiri frjálsíþróttum í rúman áratug ásamt því að sinna þjálfarastörfum.

„Ég hlakka rosalega til að opna, það verður frábært að geta þjónustað bæði gamla og nýja viðskiptavini áfram og við munum vinna áfram að því að bjóða gæðavörur á góðu verði.“