Hlutverk Lýsingar er að vera öflugur samstarfsaðili þegar kemur að fjármögnun ökutækja, vinnuvéla og annarra tækja og búnaðar. Herbert Svavar Arnarson er framkvæmdastjóri Lykils, fjármögnunarsviðs Lýsingar, og hann segir fyrirtækið hafa komist vel á skrið í útlánum á afstöðnu ári.

„Við erum bæði að fjármagna bíla fyrir fyrirtæki og einstaklinga sem og öll almenn atvinnutæki. Við erum einnig með leigustarfsemi á bílum þar sem við leigjum út bíla til lengri tíma, til 1-3 ára, þannig að fjölbreytnin er mikil hjá okkur og miklar nýjungar á boðstólum. Við teljum okkur vera með fjölbreytta fjármögnunarmöguleika fyrir fyrirtæki og einstaklinga,“ segir Herbert.

Hann segist jafnframt finna fyrir því að eftirspurn hafi aukist umtalsvert á undanförnum misserum þótt samkeppnin sé mikil. Auk þess að bjóða upp á fjármögnun á bílum og tækjum býður Lykill einnig upp á svokallaða Lykilleigu til einstaklinga og Flotaleigu til fyrirtækja sem geta þá leigt bíla með öllu inniföldu nema eldsneyti. „Þetta eru leigulausnir sem ganga enn lengra en áður hefur verið boðið upp á á þessum markaði þannig að við teljum okkur vera að bjóða mjög fjölbreytta vöru þegar kemur að fjármögnun,“ segir Herbert. Mikil vöruþróun hafi átt sér stað til að koma til móts við þær þarfir sem markaðurinn kallar á.

Nánar er fjallað um málið í Framúrskarandi fyrirtækjum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .