*

þriðjudagur, 19. nóvember 2019
Innlent 5. október 2019 13:08

Fjölbreytni starfsfólks lykillinn

Það er óhætt að segja að fyrirtækið Guide to Iceland hafi vakið nokkra athygli frá því að það kom fram á sjónarsviðið.

Jóhann Óli Eiðsson
Eyþór Árnason

Það er óhætt að segja að fyrirtækið Guide to Iceland hafi vakið nokkra athygli frá því að það kom fram á sjónarsviðið. Fyrirtækið var stofnað árið 2012 og í upphafi voru starfsmenn þrír. Síðan þá hefur því vaxið fiskur um hrygg, fjöldi starfsfólks hefur nánast tuttugufaldast og velta síðasta árs nam rúmlega 6,6 milljörðum króna.

Árið 2017 toppaði það Fast 50 listann en sá listi hefur að geyma þau fyrirtæki sem vaxið hafa mest árin fjögur þar á undan en vöxturinn frá 2013-17 hafði verið 30.314%. Félagið velti það ár alls 4,8 milljörðum króna, EBITDA þess var 826 milljónir og eiginfjárhlutfallið 48,5%.

Síðasta ár var enn betra en árið á undan. Velta ársins nam 6,7 milljörðum, EBITDA rúmlega milljarði en hagnaður eftir skatta var 795 milljónir króna. Eignir félagsins nema rúmlega 3,9 milljörðum og eiginfjárhlutfallið stendur nú í 72%. Því til viðbótar má nefna að um síðustu áramót námu fyrirfram innheimtar tekjur, sem koma þá inn í veltu ársins 2019, milljarði króna og 203 milljónum betur. Stjórn félagsins ákvað að greiða 563 milljónir króna í arð vegna síðasta árs en samanlagðar arðgreiðslur vegna síðustu þriggja rekstrarára nema 1.333 milljónum.

„Velgengni okkar er margþætt. Við höfum unnið hörðum höndum að því að koma með lausn sem nýtist ferðaþjónustufyrirtækjum og tengir þau við fjarlæga markaði sem ella væri erfitt að ná til. Það spilar auðvitað líka inn í að Ísland hefur verið vinsæll viðkomustaður ferðamanna síðustu ár og það er ekki hægt að neita því að það hefur reynst okkur heppilega. En það er ekki nóg að vera heppinn með tækifæri, þú verður að grípa þau og gera allt sem þú getur til að gera það mesta úr þeim,“ segir Xiaochen.

Hún  segir að oft gæti ákveðins misskilnings um það hvað Guide to Iceland sé. Ýmsir líti á fyrirtækið sem ferðaskrifstofu en sú sé ekki raunin. Fyrirtækið sé í raun miðpunkturinn í fjölbreyttu og yfirgripsmiklu neti íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja sem nýtist öllum ferðaþjónustuaðilum. Fyrirtækið hefur verið duglegt við að ryðja sér til rúms á vaxandi mörkuðum erlendis. Flugfargjöld hafa orðið aðgengilegri millistéttarhópum erlendis, til að mynda í ýmsum Asíulöndum þar sem Kína er fyrirferðarmest, sem hefur aukna eftirspurn í för með sér. Slíkt hafi reynst gerlegt með því að vera með fjölbreyttan hóp starfsfólks, sem telur tæplega sextíu manns, hvaðanæva að úr heiminum. Rétt rúmlega helmingur starfsmanna er af erlendu bergi brotinn en þeir koma frá um fimmtán löndum. Að mati framkvæmdastjórans er mikilvægt að hafa innan sinna raða fjölbreyttan hóp starfsfólks.

„Allir sem starfa hjá okkur hafa ákveðna sérstöðu og sérþekkingu í farteskinu sem nýtist fyrirtækinu vel. Fjölbreytnin eykur þekkingu fyrirtækisins á sérstökum mörkuðum, sem síðan gerir okkur kleift að skilja viðskiptavini okkar betur og auka samkeppnishæfni fyrirtækisins. Oft einblína fyrirtækin á samkeppnina í sínu landi en við erum að horfa út fyrir landsteinana. Til að Ísland sé samkeppnishæft við aðra áfangastaði og erlend fyrirtæki, verðum við að fjárfesta í hæfileikum. Það smitar síðan út frá sér til starfsfólksins sem er hér fyrir,“ segir Xiaochen.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Iceland to Guide