Franska kvikmyndahátíðin verður haldin í sextánda skiptið, í dag, föstudag og mun standa til 27. janúar í Háskólabíói og í Borgarbíói á Akureyri.

Hátíðin er samstarfsverkefni Alliance française í Reykjavík, sendiráðs Frakklands á Íslandi og Græna ljóssins. Þetta er annar stærsti kvikmyndaviðburður á Íslandi, næst á eftir Alþjóðlegu kvikmyndahátíð­ inni í Reykjavík, en hana sækja að jafnaði um 10.000 gestir.

Tíu myndir verða sýndar á há­ tíðinni í ár. Flestar þeirra eru frá Frakklandi en ein þeirra er frá Kanada og ein er frönsk-máritanísk. Kvikmyndahátíðin í fyrra var haldin undir þemanu „fjölbreytni“ en þótt það hafi verið sérstaklega viðeigandi í kjölfar árásarinnar á skrifstofur Charlie Hedbo stuttu fyrir hátíðina, var valið á þemanu óháð þeim.

Í ár er ekkert sérstakt þema í tengslum við hátíðina en segja má að þema hátíðarinnar í fyrra hafi náð að halda sér með einhverjum hætti.

Íslam ofarlega á baugi

„Það má segja að sambúð íslam við umhverfi sitt sé mjög ofarlega á baugi í þeim kvikmyndum sem standa til boða í ár,“ segir Pálmi Jóhannesson, upplýsingafulltrúi sendiráðs Frakklands á Íslandi, um úrvalið í ár.

Ein stærsta mynd hátíðarinnar, Timbúktú, segir frá því þegar íslamistar taka völd í Timbúktú í Malí og lýsir því hvernig nýjum siðum er þröngvað upp á íbúa. Myndin vann til sjö César-verðlauna í Frakklandi sem Pálmi lýsir sem eins konar Edduverðlaunum þar í landi auk þess sem hún var tilnefnd til Óskarsverðlauna sem besta erlenda myndin.

Önnur mynd sem tekur á málefnum líðandi stundar er kvikmyndin Ráðherrann (Quai d’Orsay), sem fjallar á gamansaman hátt um utanríkisráðherrann í Frakklandi og aðstoðarmenn hans.

Spurður að því hvort franskar kvikmyndir séu sérstaklega pólit­ ískar bendir Pálmi á að Frakkland er þriðja mesta útflutningsland á kvikmyndum í heiminum á eftir Bandaríkjunum og Indlandi og því kennir ýmissa grasa í franskri kvikmyndagerð. „Það er feikilega mikið til af alls kyns frönskum kvikmyndum og ég held að þeir sem standi að vali kvikmynda á hátíðina vilji hafa sem víðastan bakgrunn á þeim.“

Við opnun hátíðarinnar verður sýnd gamanmyndin Út og suður (Babysitting 2). Hún var frumsýnd í París 2. desember síðastliðinn og eru áhorfendur þegar orðnir hátt á þriðju milljón. Hún fjallar um vinahóp sem fer til Brasilíu, þar sem faðir stúlku í hópnum er hótelstjóri.

Hópurinn hverfur í skoð­unarferð og einu ummerkin eru í vídeóvél, þannig að til þess að komast að því hvað gerðist þarf að skoða myndbandið. Tveir leikarar í myndinni verða viðstaddir frumsýningu kvikmyndarinnar hér á landi.