*

mánudagur, 25. október 2021
Innlent 27. desember 2018 16:04

Fjölbreytt hlutverk forsetafrúar

Forsetafrúin Eliza Reid er í ítarlegu viðtali í Áramótum, sérriti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar.

Sveinn Ólafur Melsted
Haraldur Guðjónsson

Eliza Jean Reid hefur nú í rúmlega tvö ár, eða allt frá því að eiginmaður hennar, Guðni Th. Jóhannesson, tók við embætti forseta Íslands, verið forsetafrú. Eliza segir að hlutverk sitt sé fjölbreytt, enginn dagur sé eins og hægt sé að móta það eftir sínu höfði.

„Það er engin handbók sem lýsir starfi forsetafrúar eða maka forseta. Ég lít á það sem kost, þar sem þá get ég fundið mér verkefni þar sem ég geri sem mest gagn fyrir hönd þjóðarinnar. Ég fer til dæmis nær alltaf með Guðna í opinberar heimsóknir, stundum fylgi ég hans dagskrá en oft er ég með mína eigin dagskrá. En mér finnst mikilvægt núna í nútímasamfélagi, sérstaklega þegar makinn er kona, að maki forsetans taki virkan þátt í samfélagsumræðunni og hiki ekki við að tjá sig ef hann vill það. Það eru auðvitað mikil forréttindi að gegna þessu hlutverki og maður getur hjálpað til við að varpa ljósi á mikilvæg málefni. Ég er til dæmis verndari nokkurra samtaka hér á Íslandi. Svo tek ég líka að mér, þegar tækifæri gefast, að ávarpa hópa og flytja setningarávörp á ráðstefnum. Ég nýti jafnframt þau ferðalög sem fylgja hlutverki mínu til þess að kynna Ísland á alþjóðlegri grundu. Það gagnast mér vel hvað það varðar að enska er móðurmál mitt auk þess sem ég tala frönsku.

Ég starfa einnig ennþá á vettvangi bókmennta enda hef ég talsverða reynslu þar. Ég er á meðal stofnenda hinnar árlegu rithöfundasmiðju, Iceland Writers Retreat, og sinni því verkefni enn. Ég hef því reynslu af því að reka fyrirtæki og hef unnið með hinum ýmsu fyrirtækjum hér á landi í tengslum við markaðsefni á ensku. Það eru mörg framsækin nýsköpunar- og sprotafyrirtæki hér á Íslandi sem við megum vera stolt af. Ég hef jafnan reynt að nýta tækifærin sem gefast til að vekja athygli á þeim erlendis enda er mikilvægt að við nýtum öll tækifæri til að koma íslensku hugviti, framleiðslu og menningu á framfæri á erlendri grund."

Þurfti að treysta á innæi sitt

Eliza segir að þegar Guðni tók við embætti forseta og fjölskyldan flutti á Bessastaði hafi henni þótt nokkuð erfitt að engar leiðbeiningar væru tiltækar um það nýja hlutverk sem hún var að taka að sér.

„Ég vil vita til hvers er ætlast af mér og virða reglur. Því hefði mér þótt ágætt ef ég hefði getað skoðað upplýsingar um hvað ég mætti gera og hvað ég mætti ekki gera. Ég er nokkuð íhaldssöm að þessu leyti.

Í byrjun velti ég því oft fyrir mér hvort ég ætti eða mætti sitja tiltekna fundi, en við því var í raun ekkert skýrt svar. Ég þurfti því að treysta á innsæi mitt hvernig ég tækist á við hlutverkið. Ég er að eðlisfari jákvæð manneskja og ákvað að líta á þetta jákvæðum augum. Þetta er í rauninni ekki starf og þar af leiðandi er engin starfslýsing en að sama skapi er gert ráð fyrir að maki forseta sinni ákveðnum málum eða verkefnum. Þetta nýja hlutverk, eða ætti ég kannski að segja hlutskipti, felur í sér mikil tækifæri til að láta gott af sér leiða og ég elska að sinna því."

Getum ekki verið best í heimi í öllu

Eliza hefur mikinn áhuga á alþjóðamálum og um leið á því hvernig við Íslendingar háttum samskiptum okkar við önnur lönd. Hún starfaði í mörg ár sem blaðamaður og á þeim tíma ferðaðist hún mikið og skrifaði margar ferðagreinar. Auk þess er hún sérlegur velvildarsendiherra Sameinuðu þjóðanna fyrir sjálfbæra ferðaþjónustu og hefur flutt erindi í því hlutverki bæði hér heima og erlendis.

„Þetta er mjög áhugavert svið. Nýsköpunar- og sprotastarfsemi er mér einnig hugleikin, en íslensk nýsköpunarfyrirtæki eru að gera mjög góða hluti á mörgum sviðum og hafa vakið athygli erlendis," segir Eliza.

„Við erum lítið land og getum auðvitað ekki verið best í heimi í öllu, en það eru nokkur svið þar sem við stöndum mjög framarlega. Þar má sérstaklega nefna vinnslu endurnýjanlegrar orku og nýsköpun í vinnslu sjávarafurða og hinar ýmsu tækni- og hugbúnaðargreinar þar sem íslenskt hugvit er í fararbroddi."

Þá nefnir Eliza sérstaklega íslenskan bókmenntaarf og bókmenningu, sem að hennar mati er mikil gersemi sem hlúa þurfi vel að. Þannig hafi nýlega verið greint frá því að aldrei hafi fleiri íslenskir höfundar komið út í erlendum þýðingum, sem sýni ótvíræðan styrkleika íslenskra bókmennta og sé til þess fallið að auka hróður landsins enn frekar.

„Áherslur mínar og áhugasvið eru því nokkuð fjölbreytt eins og ég hef farið yfir," segir Eliza.

„Það er eitt af hlutverkum forseta landsins, og um leið maka hans, að tala máli íslenskra fyrirtækja þegar það á við, íslenskrar menningar, íslensks hugvits og þannig mætti áfram telja. Ég vil nýta starfs- og lífsreynslu mína til þess að sinna þessu hlutverki eins vel og ég mögulega get um leið og ég styð við það sem Guðni er að gera," segir Eliza.

Nánar er rætt við Elizu í Áramótum, sérriti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Áramót Eliza Reid