Á vef fjármálaráðuneytisins voru kynntar breytingar á skattlagningu ríkisins, sem taka gildi nú þegar nýtt ár er gengið í garð.

Meðal breytinganna má nefna að tekjuskattsfyrirkomulagi verður breytt talsvert, auk þess sem barnabætur hækka og tryggingargjald lækkar. Þá fellur einnig orkuskattur niður, og niðurfelling virðisaukaskatts á rafbíla er framlengd.

Breytingar á tekjuskatti einstaklinga

Breytingarnar fela í sér fækkun skattþrepa úr þremur í tvö í tveimur áföngum.

Skatthlutfall samtals í fyrsta þrepi lækkar um 0,17 prósentustig, úr 37,30% í 37,13%, skatthlutfallið í öðru þrepi lækkar um 1,39 prósentustig, úr 39,74% í 38,35% og þriðja þrepið hækkar í 46,25%.

Á árinu 2017 þegar seinni áfanginn kemur til framkvæmda lækkar skatthlutfallið í þrepi 1 í 36,95%, skattþrep 2 fellur út og þrepamörk verða lækkuð.

Barnabætur hækka, tryggingargjald lækkar

Fjárhæðir barnabóta hækka um 3% á milli áranna 2015 og 2016.

Tryggingagjaldið lækkar um 0,14 prósentustig, úr 7,49% í 7,35% á árinu 2016. Þessi breyting er hluti af lækkun tryggingagjaldsins sem lögfest var á haustþingi 2013.

Orkuskattur og rafbifreiðir

Orkuskattur á rafmagn fellur brott 1. janúar 2016. Hann var settur á sem tímabundinn skattur árið 2010 og fellur brott í samræmi við lög frá árinu 2012.

Frá árinu 2012 hefur verið heimilt að fella niður virðisaukaskatt við innflutning og skattskylda sölu nýrra rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiða. Heimildin átti að renna sitt skeið um næstu áramót en hefur nú verið framlengd út árið 2016.