*

miðvikudagur, 20. október 2021
Innlent 8. janúar 2018 14:01

Fjölbreyttari gráður skapa tækifæri

„Það að vera með eitthvert háskólapróf er ekki sami aðgöngumiðinn og í gamla daga,“ segir Ari Kristinn Jónsson, rektor HR.

Gunnar Dofri Ólafsson
Haraldur Guðjónsson

Rætt var við Ara Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, í Viðskiptablaðinu í síðustu viku.

Hingað til hefur viðhorfið á Vesturlöndum verið svolítið í þá veru að ef þú sækir þér háskólamenntun bíði þín öruggt starf. Er það raunin?

„Það að vera með eitthvert háskólapróf er ekki sami aðgöngumiðinn og í gamla daga. Það sem skiptir máli núna, sérstaklega fyrir þá kynslóð sem er að vaxa úr grasi, er að velja námsleiðir sem bæði kitla áhugann og skapa tækifæri til framtíðar. Háskólakerfið og menntakerfið í heild þurfa að koma til móts við þetta. Þetta þýðir að viðfangsefnin verða miklu fjölbreyttari en það sem var í boði þegar mín kynslóð var í námi. Við í HR höfum komið á fót fjölda þverfaglegra námsbrauta í kjölfar óska samfélagsins og atvinnulífsins. Svona leiðir og samsetningar og aukinn sveigjanleiki í námi er það sem við þurfum að bjóða upp á.

Það er ekki einhver allsherjarlisti um gráður í boði sem fólk þarf að velja á milli. Heimurinn breytist það hratt að það gagnast nánast hverjum sem er að vera með þekkingu á fleiri en einu sviði. Það skapar ný tækifæri. Við erum stundum spurð að því, þegar við beinum fólki á námsbrautir sem gefa meiri tækifæri, hvort ekki sé verið að taka af fólki tækifæri til að vinna við það sem það vill. Svarið er alls ekki. Þvert á móti erum við, ef við gerum þetta rétt, að gefa fólki tækifæri til að sinna því sem það langar að læra og vita um, út frá vinkli sem gerir því kleift að skapa sér fleiri tækifæri en ef það hefði bara tekið gráðuna eins og hún var fyrir 30 árum,“ segir Ari Kristinn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.