„Í mínum huga er ástandið á hlutabréfamarkaði að mörgu leyti eðlilegt, vegna þess að hlutabréfamarkaður er auðvitað aldrei bara í eina átt. Hlutabréf hækka og lækka eftir gengi fyrirtækjanna, eftir efnahagsumhverfinu og eftir væntingum fjárfesta. Það er ekkert eðlilegra en að þau geti lækkað í verði eins og þau geti hækkað. En auðvitað er alltaf erfiðara að vera á þessum markaði þegar hann lækkar eða skilar ekki hárri ávöxtun.“ Þetta segir Margrét Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri eignastýringarsviðs Arion banka, spurð hvaða augum hún lítur ástandið á hlutabréfamarkaði undanfarið. Margrét þekkir þessi mál vel, hefur lengst af á sínum starfsferli starfað í eignastýringu og verðbréfatengdri starfsemi.

„Hins vegar má segja það um hlutabréfamarkaðinn núna að það eru fjölbreyttari fyrirtæki skráð á markaðnum en áður, þótt fyrirtækin séu ekki mjög mörg. Þetta er ekki stór markaður enda erum við svo sem ekki í stóru hagkerfi. En það má segja að miðað við það sem var á árum áður er hann að mörgu leyti fjölbreyttari. Það er kostur. Eitt af grunnatriðunum í eignastýringu og þegar þú ert almennt að ávaxta fé á markaði er að dreifa áhættunni. Bæði með því að vera í mismunandi eignaflokkum, til dæmis hlutabréfum eða skuldabréfum, og með því að velja einstök verðbréf innan þeirra.“

Margrét segir að framan af ári hafi ástand á hlutabréfamarkaði vissulega verið erfitt. „Það sem er ánægjulegt núna er að hann hefur náð sér aðeins á strik á síðustu vikum. Fréttir af skráðum fyrirtækjum hafa að mestu verið jákvæðar sem eykur bjartsýnina. Rekstur fyrirtækjanna gengur betur og efnahagur þeirra hefur verið að styrkjast. Skuldsetning hefur ekki verið lægri í mörg ár. Fyrirtækin hafa því meira bolmagn til að ráðast í fjárfestingar sem að öðru óbreyttu styrkir arðsemi þeirra til lengri tíma.“

Margrét er í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .