*

mánudagur, 14. júní 2021
Innlent 10. maí 2018 16:25

Fjölbýlið lykillinn að rafbílavæðingu

Hraðhleðslustöðvar gera landsmönnum kleift að ferðast hringinn í kringum landið á rafbílum en fyrir marga eru það væntanlega ekki langferðirnar sem skipta sköpum heldur aðstæður fyrir hið daglega amstur.

Ritstjórn

Um fimmtungur íbúðabygginga landsins er án aðgengis að rafmagni til hleðslu rafmagnsbíla. Sum sveitarfélög eru stutt frá því að geta boðið öllum íbúum aðgengi að rafmagnshleðslu. Sífellt fjölgar þeim landsmönnum sem hafa kosið að keyra um götur landsins á rafbílum eða tengitvinnbílum. Hraðhleðslustöðvar gera landsmönnum kleift að ferðast hringinn í kringum landið á rafbílum en fyrir marga eru það væntanlega ekki langferðirnar sem skipta sköpum heldur aðstæður fyrir hið daglega amstur.“

Þetta kemur fram í grein þeirra Guðna Rúnars Gíslasonar og Inga Þórs Finnsonar sem birtist í Viðskiptablaði vikunnar.

„Það gefur auga leið að til að geta notað rafbíl daglega þurfa ákveðnar forsendur að vera til staðar. Í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands má finna gögn um aðstæður fyrir rafbílavæðingu íbúa hér á landi,“ segir í greininni.

„Fyrir þá aðila sem móta framtíðarsýnina í þessum málaflokki þá getur reynst heillavænlegt að skoða hvaða þarfir íbúar hafa áður en farið er í framkvæmdir til að styðja við rafbílavæðingu. Ríkið, sveitarfélög og orkufyrirtæki landsins munu væntanlega öll eiga stóran þátt í því hvernig umrædd rafbílavæðing fer fram. Í sumum sveitarfélögum eru aðstæður slíkar að ekki er þörf á miklum úrbótum til þess að sveitarfélagið geti í raun boðið öllum íbúum sínum upp á aðstöðu til að hlaða rafbíla. Í þessari greiningu er útgangspunkturinn sá að það að geta hlaðið bílinn heima sé forsenda almennrar útbreiðslu rafbíla. Skoðaðar voru allar skráðar, fullbúnar íbúðir og þær flokkaðar í 5 flokka. Flokkur 1 eru íbúðir sem eiga bílskúr, flokkur 2 eru íbúðir sem flokkast sem sérbýli en eru ekki með skráðan bílskúr, flokkur 3 eru íbúðir með eigið stæði í bílageymslu, flokkur 4 er tveggja hæða fjölbýli og flokkur 5 eru fjölbýli á meira en tveimur hæðum. Það er ljóst að útbreiðsla rafbíla er líklegri í flokkum 1-3 en í flokkum 4-5 þarf oftar að grípa til flóknari aðgerða, svo sem með uppsetningu rafmagnstengla við sameiginleg bílastæði.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.