Lögbundnar fjöldatakmarkanir á fjölda útgefinna leyfa til leigubílaaksturs eru ekki á leið út á næstu misserum. Þetta segir Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra í svari við fyrirspurn Viðskiptablaðsins.

Frá því var greint í blaðinu 23. október síðastliðinn að Samkeppniseftirlitið og OECD legðust harðlega gegn fjöldatakmörkunum á leigubílamarkaði, en forstjórar stærstu leigubílastöðvanna teldu hins vegar að þær væru nauðsynlegar. Hætt væri að glæpatíðni myndi aukast ef stigið væri í frjálsræðisátt í greininni.

Núverandi kerfi gefist vel

„Núverandi kerfi hefur að ýmsu leyti gefist vel, af því að þjónusta leigubifreiða er almennt talin góð, bifreiðarnar eru góðar og verðin ásættanleg,“ segir innanríkisráðherra.

„Hins vegar gildir það sama um þetta eins og aðra starfsemi, að ég tel að ríkið eigi að hafa sem minnst afskipti af henni og hvað þá að reyna að hafa áhrif á framboð. Það kemur því vel til greina að skoða einhverjar breytingar á fjöldatakmörkunum á einhverjum tímapunkti,“ segir innanríkisráðherra. Það standi þó ekki til í fyrirhugðum breytingum á lögum um atvinnubílstjóra.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .