Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segir breytingar á leigubílamarkaðnum óhjákvæmilegar. Leiða má að því líkur að fallið verði frá fjöldatakmörkunum og stöðvarskyldu á leigubílamarkaði. Þá verði væntanlega ekkert því til fyrirstöðu að farveitur á borð við Uber fái að hefja starfsemi hér á landi - að uppfylltum þeim skilyrðum og kröfum sem til þeirra verði gerðar.

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hóf frumkvæðisathugun á íslenska leigubílamarkaðnum á síðasta ári. Athugunin beinist einkum að því hvort það felist lögfestar aðgangshindranir á markaðnum. ESA tók norsku leigubílalögin til skoðunar í sambærilegri athugun fyrir rúmlega ári síðan og komst að þeirri niðurstöðu í rökstuddu áliti að takmörkun á fjölda leigubíla og stöðvarskylda brjóti gegn EES-samningnum.

Norsku leigubílalögin eru keimlík þeim íslensku. Yfirmaður hjá ESA hefur opinberlega sagt að ákvæði íslenskra laga um leigubifreiðar feli líklega í sér hindranir sem brjóti gegn EES-samningnum.

Jón Gunnarsson, þáverandi samgönguráðherra, skipaði starfshóp á síðasta ári um endurskoðun á regluverki um leigubílaakstur. Var hópnum falið að skila tillögum til ráðherra um hvort og þá hvaða breytingar væri nauðsynlegt að gera á íslensku regluverki, sérstaklega með tilliti til þess hvort regluverkið sé í samræmi við EES-samninginn og hvort gera ætti ráð fyrir þjónustu farveita á borð við Uber og Lyft hér á landi.

Sigurður Ingi lét starfshópinn starfa áfram eftir stjórnarskiptin í byrjun ársins. Hópurinn skilar lokaskýrslu til ráðherra nú í mánuðinum, en áfangaskýrslu hefur þegar verið skilað.

„Áfangaskýrslan er skýr. Það er nauðsynlegt að afnema fjöldatakmarkanir á útgefnum atvinnuleyfum til leigubílaaksturs og falla frá lögbundinni stöðvarskyldu í þeirri mynd sem hún er í dag. Þó verður réttur til leigubílaaksturs áfram háður leyfi og skilyrðum sem eiga að tryggja öryggi og gæði þjónustunnar, segir Sigurður Ingi í samtali við Viðskiptablaðið.

„Með hliðsjón af skuldbindingum Íslands gagnvart EES-samningnum telur starfshópurinn að breytingar á leigubílamarkaðnum séu óhjákvæmilegar. Mér sýnist það vera rétt.“ Hann bætir því við að á öllum Norðurlöndunum eigi sér stað um þessar mundir undirbúningur að breytingum sem snúa að því að fella niður fjöldatakmarkanir.

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, hefur lagt fram þingsályktunartillögu um að Alþingi feli samgönguráðherra að afnema hámarksfjölda leigubifreiðaleyfa, fækka kvöðum fyrir veitingu þeirra og opna leigubifreiðamarkaðinn fyrir aukinni samkeppni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .